Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Um hjartað liggur leið: leiðsögn um fyrirheit og hættur andlegs lífs

3,490 ISK 2,690 ISK

Höfundur Jack Kornfield

Í bókinni hvetur höfundurinn fólk til að fylgja leið hjartans, að eiga raunverulega samtal við hjartað líkt og góðan vin, að binda enda á stríðið, jafnt hið ytra sem innra og að rækta kærleikann. Í því samhengi vitnar hann í orð Móður Theresu sem segir: Í þessu lífi getum við ekki unnið nein stórvirki. Við getum aðeins unnnið lítil verk með miklum kærleik. Sigurður Skúlason leikari íslenskaði bókina Og um það hvað andlegt líf snúist fyrst og fremst kemst Jack Kornfield svo að orði: Þegar kemur að leiðarlokum og fólk lítur yfir farinn veg eru spurningarnar sem það spyr yfirleitt ekki „hvað sé mikið inni á bankabókinni“ eða „hvað það hafi skrifað margar bækur“ eða „byggt mörg hús“. Ef þú hefur notið þeirra forréttinda að vera hjá fólki sem veit að það er að deyja þá veistu að spurningar þess eru mjög einfaldar: Gaf ég raunverulega ást? Lifði ég lífinu lifandi? Lærðist mér að gefa eftir? Í þessum spurningum felst kjarni andlegs lífs. Úr 1. kafla bókarinnar

Jack Kornfield er kunnur andlegur lærifaðir og hugleiðslukennari. Hann er fyrrverandi búddamunkur úr klaustrum Suður-Asíu sem kastaði kuflinum er hann fluttist aftur heim til Bandaríkjanna. Hann er doktor í klínískri sálarfræði og hefur einstak lag á að samþætta hina fornu og tímalausu speki Austurlanda annars vegar og nútíma vestræna sálarfræði hins vegar með hvorutveggja óvenjulegum og áhrifaríkum hætti. Hann hefur ferðast víða um heiminn, haldið fyrirlestra og stjórnað kyrrðarvökum, auk þess að skrifa bækur sem hafa hlotið mikla athygli. Um hjartað liggur leið kom út hjá Bókaútgáfunni Sölku árið 2004 og er löngu uppseld. Bókin hefur að geyma valda kafla úr tveimur bóka Jack Kornfields, þ.e. bókinni Um hjartað liggur leið (A Path With Heart) og After The Ecstasy The Laundry (Þegar sælunni lýkur taka þvottarnir við). Það er þessi blanda sem gerir það að verkum að bók Jacks heppnast jafn vel og raun ber vitni.

Kímnigáfa, sögur af hversdagslífi, nákvæmar ráðleggingar á erfiðum stundum, djúpstæð þekking og hamingjuríkt hjarta – svo sannarlega ánægjuleg leið niður í djúpin. James Hillman

Það er uppörvandi að sjá Vesturlandabúa tileinka sér hinar austrænu hefðir jafn vel og Jack gerir og deila þeim með öðrum. Megi slíkt starf verða til þess að stuðla að friði með öllum lifandi verum. Dalai Lama