Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Pabbinn

3,990 ISK 499 ISK

Höfundur Bjarni Haukur Þórsson

Á einstaklega skemmtilegan og einlægan hátt lýsir Bjarni Haukur Þórsson meðgöngu barnsmóður sinnar, föðurhlutverkinu og öllu sem því viðkemur. Hann segir líka frá skilnaðinum og hvernig það er að vera einstæður faðir í glundroða nútímans. Bráðfyndin og einstök lýsing sem snertir streng í öllum sem lesa. Bókin er einnig komin út í Þýskalandi og hefur hlotið frábærar viðtökur. Pabbinn er skáldsaga — byggð á sönnum atburðum. Þetta gerðist svona, en samt ekki alveg ... Úr formála: „Af hverju er Bjarni Haukur Þórsson búinn að skrifa bók? Svarinu við þeirri spurningu er ekki hægt að svara. Hann bara skrifaði bók. Árni Johnsen gaf út plötu. Sumt fólk þarf bara að koma ákveðnum hlutum frá sér. … „Hvers vegna fékk Bjarni Haukur Þórsson að skrifa bók? Ég meina, hann er maðurinn á bak við Báru Mahrens. Má þetta?“ Svarinu við þeirri spurningu er þó auðsvarað: „Já, á Íslandi má þetta. Þetta yrði þó stöðvað í Íran.“ … En alls konar fólk hefur svo sem sest niður og skrifað bók. Dan Quale fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna skrifaði bók. Hún hefst á þessum orðum: „I have made good judgements in the past. I have made good judgements in the future.“ Ef þú spyrð mig þá finnst mér þetta stórkostleg byrjun á bók. Hver vill ekki lesa bók um mann sem hefur tekið góðar ákvarðanir í framtíðinni? Bókin hans er pottþétt mjög vinsæl í Íran. Það fyrsta sem ég ákvað þegar ég settist niður til að skrifa bók er að hún yrði að vera góð. Fljótlega komst ég svo að því að það er svolítið snúið að skrifa góða bók. Það er töluvert minna mál að skrifa lélega bók. En þetta var bara ákvörðun sem ég tók. Ég var nokkuð ánægður með hana. Mér fannst ég strax vera kominn eitthvað áleiðis. … Letur skiptir líka svakalegu máli. Það er hægt að segja miklu meira með því en fólk áttar sig á. Biblían er til að mynda prentuð með Helvetica letri. Tilviljun? Veit ekki. Ku Klux Klan-bókin Birth of a Nation er prentuð með Arial Black letri. Tilviljun? Veit ekki. Letrið hér heitir Arno Pro. Tilviljun? Ó, nei.