Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Uppselt

Einstök mamma

1,990 ISK

Höfundur Bryndís Guðmundsdóttir

Þessi vara er ekki fáanleg eins og er

Einstök mamma byggir á stuttum sögum eða myndbrotum úr lífi lítillar stúlku um 1965. Hún á heyrnalausa móður sem tjáir sig með táknum og talar því annað tungumál en flestir aðrir og stundum getur það flækt málin aðeins. Sögurnar hafa þann tilgang að auka skilning og vekja börn til umhugsunar um að ekki eru allir foreldrar eins.

Tjáning er forsenda þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Vegna erfiðleika í tjáskiptum bíða sumir skipbrot, ef ekki kemur til skilningur og umburðarlyndi.

Reynsla barna sem eiga heyrnalausa foreldra er að sumu leyti hliðstæð reynslu þeirra sem eiga foreldra af erlendum uppruna. Í báðum tilvikum er það oft hlutskipti barnanna að tala fyrir munn pabba og mömmu. Höfum í huga að hver og einn einstaklingur er sérstakur og í þessari bók er mamman vissulega einstök!

„Litla systir var farin að ganga og mamma var alltaf að kenna henni að klappa og vera stór. Svo fór hún að tala og hreyfa hendurnar eins og mamma. Við Óli reyndum að kenna henni tákn og að tala um leið. Mamma fylgdist vel með og spurði hvort litla systir væri dugleg að tala. - Já, sögðum við Óli, hún talar mjög skýrt.- Getur hún sagt öll hljóð? Getur hún sagt k og g spurði mamma. Þegar mamma var lítil átti hún nefnilega erfitt með að segja k og g hljóðin. Svo gat hún heldur ekki sagt r. Það var svo erfitt fyrir hana að sjá hvar tungan á að vera þegar þessi hljóð eru sögð. Hún heyrði hvorki né sá hljóðin og þess vegna varð hún að halda um hálsinn og finna titring. Hún þurfti líka að vita hvert tungan átti að fara. Við Óli prófuðum að segja þessi hljóð án þess að láta nokkuð heyrast. Það var erfitt. Það hlaut að hafa verið mjög skrýtið fyrir mömmu að læra að tala þegar hún var lítil og heyra ekkert í sjálfri sér.