Netverð

Hversdagsgæfa

2,990 kr 490 kr

Höfundur Þóra Jónsdóttir

Þessi bók geymir gullfallegar, ljóðrænar lýsingar úr hversdagslífi konu sem er alin upp í sveit en hefur síðan tekist á við tilveruna á mölinni. Hún horfir til baka og skoðar hlutina, stundum með trega en oft í kómísku ljósi og nútíminn kallast sífellt á við fortíðina. Stundum virðist henni sem gamla húsið sé lifandi og rætur þess liggi djúpt ofan í jörðina. Litla barnið fer vel í fangi og minnir á æðarungana sem hún fann undanvillta í æsku, geymdi í vasanum og sleppti á vatnið, en sumt „þýðir ekki að segja fólki“. „Vandinn er sá að tíminn líður of hratt. Hún hefur ekki roð við honum. Sagt er að hægt sé að tala við blóm. Hún ætlar að ráðgast við þau um tímann.“ Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur áður sent frá sér níu ljóðabækur. Hún fjallar jafnan um hin órjúfanlegu tengsl manneskjunnar við fortíð og náttúru og hverdagsmyndir hennar gæða okkar eigin hvunndag lit og lífi. Hversdagurinn er helsta viðfangsefnið með öllum sínum undrum, meðal annars hanska sem sögukona finnur og tyllir í gluggakistu, bara til að hitta þar stuttu síðar fyrir konu sem er ægiglöð yfir að hafa fundið hanskann sinn: „Ég samgleðst því að blár kvenhanski, nöturlegt tákn einsemdar og reiðileysis, hefur raðast snögglega á réttan stað í almyndina. Þetta örstykki í púsluspili tilverunnar.” Og þannig er bók Þóru, örstykki í púsluspili skáldskaparins, einmitt eitt þeirra stykkja sem heldur myndinni saman. Úlfhildur Dagsdóttir, desember 201, af bókmenntir.is - Smelltu hér til að lesa ritdóminn í heild sinni Brot úr bókinni Veisla Skrautbúin konan býr okkur dýrðlega veislu. Af einhverjum ástæðum fæ ég að halda á barni hennar í fanginu hvert sem ég fer. Fjöldi manns kemur og fagnar gestgjafanum. Ég þekki nokkuð marga, þar á meðal fornvin sem hefur dvalið lengi erlendis. Þegar ég spyr hann hvort hann sé aftur á förum segir hann mér að hér heima sé kona sem alltaf hafi beðið hans og hann hljóti að kvænast. Ég hugleiði hver hún sé og það renna á mig tvær grímur (bls. 54). Þúsund rasta þorsti Ég er þyrst. Svo þyrst að ekkert nema lindarvatn úr fjallalæk, teygað af bakkanum, getur svalað þeim þorsta. Ég sest upp í bílinn að hann flytji mig að uppsprettunni. En bíllinn hefur sinn eigin vilja, svo ekki sé meira sagt. Hann brennir tafarlaust af stað austur fyrir fjall. Ég hefði kosið veginn um Hengilsvæðið að svipast um eftir hverafuglum og þess háttar, en hann er vanafastur og vill halda sig við hefðbundna leið. Það er rétt svo að ég eygi flugheftan svan á Fóvelluvötnum í framhjáhlaupinu. Þessi bifreið ekur ætíð framhjá Litlu kaffistofunni og Skíðaskálanum eins og þau séu ekki til. Mikið mætti hann vera bensínþyrstur til að taka beygjuna að Hveragerði. Frekar víkur hann af þjóðvegi eitt í útjaðri Selfoss og drekkur þar, þykir enda sopinn góður. Í þetta skiptið er honum mikið í mun að halda hraðanum, kannski vill hann ekki hleypa flutningabílum fram fyrir sig. Hvað veit ég. Þegar hraðakstrinum hefur haldið lengi fram, og jafnvel Hekla er að baki, gerist ég óþreyjufull og vil að hann efni heit sitt við mig um fjallalind. Kemur þá á daginn að það hefur aldrei verið á dagskrá hans. Í þeim töluðu orðum snýr hann á punktinum og nemur ekki staðar fyrr en í stæðinu heima (bls. 45-46).