Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Framúrskarandi dætur - Staða kvenna í Mið-Austurlöndum

Líf margra kvenna í Mið-Austurlöndum hefur breyst á undanförnum árum og fjöldi kvenna berst fyrir auknum réttindum. Staða þessara kvenna er til umfjöllunar í bókinni Framúrskarandi dætur sem nýlega kom út hjá Sölku.

Í tilefni útgáfu bókarinnar verður málþing um stöðu kvenna í Mið-Austurlöndum þann 16. maí kl.12:00 í Veröld, húsi Vigdísar. Frummælendur verða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir og Þórir Jónsson Hraundal en þau hafa öll yfirgripsmikla þekkingu á málefnum Mið-Austurlanda.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Salka og Mið-Austurlandafræði við HÍ standa fyrir málþinginu. Vinsamlegast skráið ykkur hér:

 

Frummælendur:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fyrrverandi umdæmisstjóri UN Women fyrir Evrópu og Mið Asíu. Áður var Ingibjörg yfirmaður UN Women í Afganistan. Ingibjörg átti stóran þátt í auknum hlut kvenna í stjórnmálum á Íslandi og tók hún sæti í borgarstjórn 1982 fyrir kvennaframboðið og var síðar þingkona Kvennalistans á árunum 1991 til 1995. Ingibjörg Sólrún tók aftur sæti á þingi á árunum 2005 til 2009 og var hún utanríkisráðherra á árunum 2007 til 2009. Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri Reykjavíkur 1994 til 2003.

Þórir Jónsson Hraundal er umsjónarmaður Mið-Austurlandafræða og aðjúnkt við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans beinast helst að arabískum miðaldatextum og vitnisburði þeirra um víkingaöldina.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir hefur sterk tengsl við Mið-Austurlönd og nú síðast dvaldi hún í Kaíró í Egyptalandi þar sem hún starfaði í sex mánuði hjá Friðgæslunni hjá World Food Program sem kynjaráðgjafi. Guðrún hóf doktorsnám í mannfræði til að rannsaka kvennabaráttuna í Katar þar sem hún bjó sem unglingur og ung kona. Guðrún bjó einnig í Sameinuðu furstadæmunum, Kuwait og Yemen frá 15 ára til 25 ára og gifti sig og eignaðist börn þar. Guðrún hefur bæði BA og MA próf í mannfræði og talar arabísku.

Um Framúrskarandi dætur:

Framúrskarandi dætur gefur þarfa og mikilvæga innsýn í daglegt líf ungra kvenna í Mið-Austurlöndum á miklum umbreytingatímum. Staða kvenna í heimshlutanum hefur tekið breytingum á undanförnum árum og nýrri kynslóð fylgja sjálfstæðar ungar konur sem sækja menntun og vilja láta til sín taka á vinnumarkaðinum.

Skrásetjari bókarinnar er blaðakonan Katherine Zoepf sem hefur búið og starfað í Mið-Austurlöndum í meira en áratug. Hún lýsir flóknum veruleika ungra kvenna þar á einlægan og hlutlausan hátt. Hún dvelur í Sýrlandi fyrir borgarastyrjöldina og lýsir þjóðfélagi á tímamótum, í Líbanon, sem á yfirborðinu er frjálslyndara en jafnframt mótsagnakenndara, en önnur ríki Mið-Austurlanda, Abú Dabí þar sem konur eru í síauknum mæli á frjálsum vinnumarkaði, í Sádi-Arabíu þar sem konur hafa mótmælt akstursbanninu og storkað forræði karla og loks í Egyptalandi þar sem konur gegndu veigamiklu hlutverki í uppreisninni og arabíska vorinu sem fylgdi í kjölfarið.

Boðskapur Framúrskarandi dætra er aðkallandi og varpar ljósi á þá þróun sem hefur átt sér stað í Mið-Austurlöndum á undanförnum árum og ljær ungu konunum í fremstu röð breytinganna rödd.

Þýðandi er Katrín Harðardóttir.

Úr umsögnum um bókina:

“Átakanleg og áhrifarík … þekking Katherine Zoepf á arabísku, opinn hugur hennar, skýrleiki og samúð og mögulega fortíð hennar sem vottur Jehóva gerir henni kleift að skilja líf þessara kvenna á þeirra eigin forsendum. Hún missir hvergi fótanna, hvorki í heimi þeirra né okkar.”

New York Times

“Katherine Zoepf veitir lesendum persónulega innsýn í smáar en róttækar gjörðir þessara kvenna. Hún varpar ljósi á valið sem þær standa frammi fyrir á degi hverjum og býður staðalímyndinni sem vestrænir lesendur kunna að hafa af íbúum Mið-Austurlanda byrginn”

Washington Post