Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Foldarskart

12,890 ISK

Höfundur Helgi Hallgrímsson

Í þessari bók er fjallað um íslenskar blómplöntur í máli og myndum, að undanskildum grasleitum plöntum, sem hafa óveruleg blóm. Lýst er um 300 tegundum, sem hér hafa vaxið frá alda öðli, og rakin saga þeirra, þ.e. nýting, nöfn o.fl. Auk þess er getið um 240 tegunda, sem hafa numið hér land á síðustu einni og hálfri öld, eða hafa verið hér lengi í ræktun, flestum þeirra er stuttlega lýst. Notuð er hefðbundin skipting í kvíslir og ættir og þeim er ýtarlega lýst. Ættir eru flokkaðar eftir lögun blóma og blómskipunar, en líka í tré og runna og vatnaplöntur. Um 500 ljósmyndir eru í bókinni, þar af eru 50 heilsíðumyndir. Birt er ágrip af sögu grasafræði á Íslandi, sem ekki hefur áður sést á prenti. Nokkuð er um íslensk nýnefni í bókinni, en eldri nafna er þá jafnan getið. Bókin er ekki flóra í venjulegum skilningi, þó eflaust geti hún notast til að greina flestar tegundir blómplantna. Tilgangur hennar er fyrst og fremst að vekja athygli almennings á blómskrúði landsins okkar, og veita nánari fræðslu um þær plöntur sem hér er að finna, m.a. um nýtingu þeirra til matar, litunar, lækninga o. fl. Engin samsvarandi bók er til um blómgróður Íslands, en í grannlöndum okkar hafa lengi verið til svipaðar bækur, flestar í nokkrum bindum, því tegundir eru þar mun fleiri. Þær voru höfundi til leiðsagnar við ritun Foldarskarts.