Grænland og fólkið sem hvarf
6,490 ISK
Höfundur Valur Gunnarsson
Árið 1408 var brúðkaup haldið í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi. Í kjölfarið héldu brúðhjónin til Íslands og hefur ekki spurst til byggðar norrænna manna á Grænlandi síðan. Þremur öldum síðar kom danski presturinn Hans Egede til landsins í leit að afkomendum norrænna manna. Þeir fundust ekki en Danir tryggðu sér yfirráð yfir eyjunni, sem með einhverjum hætti standa enn. En hvað varð af þessu samfélagi norrænna manna á Grænlandi sem hafði fyrirfundist í næstum 500 ár?
Sagnfræðingurinn Valur Gunnarsson veltir hér upp ráðgátunni um þetta dularfulla hvarf heillar siðmenningar. Sagt er frá byggð norrænna manna á miðöldum, allt frá Eiríki rauða til brúðkaupsins í Hvalseyjarkirkju. Einnig er saga landsins fram á okkar daga rakin. Grænland sem hluti af nýlenduveldi Dana, þjóðfélagsbreytingarnar miklu á 20. öld, umsvif Bandaríkjamanna sem hófust í síðari heimsstyrjöld og hin ýmsu hneykslismál sem hafa flækt samband Grænlands og Danmerkur undanfarið.
Valur dvaldi á Grænlandi og skoðaði þar fornminjar jafnt sem að taka heimamenn tali og dvaldi auk þess á hreindýrabúi um stund. Bókin er aðgengilegt sagnfræðirit og ferðasaga í bland eins og höfundar er von og vísa.
Valur Gunnarsson lærði sagnfræði við Háskóla Íslands, Háskólann í Helsinki, Humboldt-háskóla í Berlín og Kúras-stofnunina í Kænugarði jafnt sem ritlist í Belfast og Norwich. Hann hefur áður sent frá sér átta bækur, þar á meðal Berlínarbjarma þar sem hann kryfur sögu hinnar margslungnu borgar frá ýmsum hliðum, Bjarmalönd sem greinir frá arfleifð Sovétríkjanna í Austur-Evrópu, skáldsöguna Örninn og fálkann sem fjallar um hvað hefði gerst ef nasistar hefðu hernumið Ísland, Stríðsbjarma um átökin á milli Úkraínu og Rússlands sem og tvær bækur um „hvað ef?“-spurningar sögunnar, aðra þeirra á ensku. Valur hefur starfað fyrir fjölmarga miðla, gert útvarpsþætti og skrifað pistla og haldið fyrirlestra fyrir bæði lærða og leika.
