Pólstjarnan fylgir okkur heim
4,490 ISK 3,990 ISK
Höfundur Margrét Lóa Jónsdóttir
Pólstjarnan fylgir okkur heim er magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina.
Pólstjarnan fylgir okkur heim, nýjasta ljóðabók Margrétar Lóu Jónsdóttur, er komin út hjá Sölku. Margrét hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir bókina en þau eru veitt ár hvert í minningu skáldsins Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Í umsögn dómnefndar segir að Pólstjarnan fylgir okkur heim sé magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina.
Pólstjarnan fylgir okkur heim er fimmtánda ljóðabók Margrétar en hún hefur einnig gefið út eina skáldsögu. Margrét hefur síðustu ár fengist við skáldskap, þýðingar, kennslu og myndlist. Þetta er í fyrsta sinn sem hún hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.
Umsögn dómnefndar í heild sinni:
Ljóðmælandi situr á útikaffihúsi og hugsar um lífið og tilveruna. Minningar leita á hana; minningar um látna ástvini, ljúfsár augnablik úr æsku og ferðalög á fjarlægar slóðir. Úr þessum minningum verður til ljóðrænt vitundarstreymi sem er í senn kjarnyrt og margrætt.
Pólstjarnan fylgir okkur heim er vandað og vel uppbyggt handrit með skýrum boga. Um er að ræða samfellda frásögn sem skiptist í mörg stutt, ónefnd ljóð sem saman mynda samhljóm er minnir á sinfóníu eða óhlutbundið kvikmyndaverk. Ljóðmálið er tært og grípandi og í gegnum handritið má finna magnaðar ljóðmyndir sem sitja lengi í huga lesanda að lestri loknum.
Höfundur fetar fimlega einstigið á milli hins pólitíska og persónulega, án þess þó að vera prédikandi og þrátt fyrir að hér sé ort um flóttafólk, stríð og dauða þá liggur í gegnum handritið þráður vonar sem er ekki bara viðeigandi fyrir þá tíma sem við lifum, heldur ef til vill nauðsynlegur. Táknmynd handritsins er Pólstjarnan, leiðarstjarnan sem í aldanna rás hefur vísað mannkyninu veginn um ókunn höf og lönd.
Á sama hátt og Pólstjarnan vísaði sæförum veginn á öldum áður, vísar hún lesendum veginn í gegnum handrit sem við fyrstu sýn virðist ólínulegt en er þó jafn víðáttumikið og kunnuglegt og stjörnuhiminninn.
Pólstjarnan fylgir okkur heim er magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina.