Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Elspa saga konu

4,690 ISK

Höfundur Guðrún Frímannsdóttir

Hér rekur Elspa Sigríður Salberg Olsen harmsögulega ævi sína og upprisu til nýs lífs á síðustu árum. Elspa, sem fæddist á Akureyri skömmu fyrir miðja síðustu öld, fékk bágborið veganesti út í lífið. Hún ólst upp við sára fátækt, alkóhólisma, ofbeldi og kynferðislega misnotkun og fór að mestu á mis við formlega menntun.

Margvíslegar raunir og mótlæti sem Elspa hefur mætt á lífsleiðinni, eins og að missa nokkrar dætur sínar, róstusöm hjónabönd og fátæktarbasl, hefur svo sannarlega reynt á. Erfiðustu glímuna háði hún samt við sig sjálfa, en hún sat í gæsluvarðhaldi eftir átök við fyrrverandi eiginmann auk þess að leggjast inn á geðdeild oftar en einu sinni. Styrkur Elspu og staðfesta hafa þó alltaf fleytt henni í gegnum boðaföllin.

Elspa – saga konu er skráð af Guðrúnu Frímannsdóttur félags­ráðgjafa, sem kom að málum Elspu og dætra hennar á sínum tíma með dramatískum hætti. Upp frá því þróaðist með þeim náinn vinskapur sem skilar sér nú í þessari mögnuðu frásögn þar sem Elspa gerir upp líf sitt af fádæma hreinskilni.

Sláandi saga Elspu á tvímælalaust erindi inn í nútímann og þá mikilvægu umræðu sem á sér stað um arf félagslegra aðstæðna og áfalla milli kynslóða.