Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

ÓBYGGÐ OG ALLSNÆGTIR

3,490 ISK

Höfundur Frank Fraser Darling

Óbyggð og allsnægtir eftir breska vistfræðinginn Frank Fraser Darling urðu til sem Reith-fyrirlestrar ársins 1969 en breska ríkisútvarpið, BBC, býður árlega einum frammámanni í vísindum og fræðum að halda þessa fyrirlestra um efni sem á erindi til þjóðfélagsins alls. Fyrirlestrar Fraser Darlings voru merkt framlag til umræðunnar um ábyrgð mannsins gagnvart náttúrunni á þeim tímum sem vitundarvakning var að verða um vistfræði og mikilvægi náttúruverndar. Höfundurinn var lærður búfræðingur og starfaði um tíma sem bóndi, en hlaut síðar doktorsgráðu í dýrafræði og gerðist frumkvöðull með rannsóknum sínum á vistkerfi mannsins þar sem hann samþættaði náttúrusögu, dýrafræði og erfðafræði og var fyrir framlag sitt sleginn til riddara og sæmdur ýmsum öðrum viðurkenningum.

Fraser Darling var einn af kunnustu baráttumönnum fyrir náttúruvernd, ferðaðist víða um heim til að gera rannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið og vakti athygli á ýmiss konar misnotkun sem ógnaði náttúrunni og gerir enn í dag. Nýstárleg sýn hans á þessi efni, þar sem saman kemur ríkulegt innsæi og öguð vísindi, hefur orðið áhrifamikil á sviði vistfræðirannsókna þar sem verk hans eru enn í fullu gildi. Hann hvatti stjórnmálamenn til að axla ábyrgð og varaði við því að stefnan í umhverfisvernd væri mörkuð af yfirborðskenndum og einfölduðum útskýringum. Í Óbyggð og allsnægtum fjallar Fraser Darling um þrjú af mest aðkallandi vandamálum umhverfisfræðinnar: fólksfjölgun, mengun og nýtingu náttúruauðlinda. Öll þessi efni eru ekki síður brýn nú á dögum en þegar bókin kom fyrst út, en höfundurinn er einn þeirra sem hvað mestar þakkir eiga skildar fyrir að hafa  komið af stað hinni miklu hreyfingu sem nú leitar leiða til lausnar. Hann kemur reyndar víðar við í bókinni og bregður á athyglisverðan hátt ljósi vistfræðinnar á efni á borð við tækniþróun, byggingarlist og siðfræði kynlífsins.

Eyþór Einarsson grasafræðingur ritar forspjall um umhverfisfræði og þá vakningu í náttúruvernd sem rétt var að byrja að berast til Íslands á þeim árum sem bókin kom út.

Þýðing: Óskar Ingimarsson. Inngang ritar Eyþór Einarsson.