Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Stjórnmál og bókmenntir

3,620 ISK

Höfundur George Orwell

George Orwell er með þekktari pólitískum skáldum 20. aldar. Hann var rithöfundur, ljóðskáld og blaðamaður en er nú oftast minnst fyrir skáldsögur sínar, Dýrabæ, sem komið hefur út í íslenskri þýðingu á vegum Bókmenntafélagsins, og 1984. Orwell, sem lýsti sér sem sósíalískum demókrata, lét óréttlæti og alræðisstefnur samtímans sig svo miklu varða að hann gerðist sjálfboðaliði í stríðinu gegn þjóðernissinnum á Spáni og reyndi ákaft að bjóða fram krafta sína í stríði Bretlands gegn Hitler. Áðurnefndar bækur bera pólitískri meðvitund Orwells skýrt vitni og fordæma harðlega hvers kyns tilhneigingar til alræðis, undir hvaða merkjum sem þær birtast. En þótt flestir nútímamenn tengi Georges Orwell við eftirminnilegan skáldskap, þá var hann einkum kunnur meðal samtímamanna sinna fyrir blaðamennsku sína og snjallar ritgerðir.

Ritgerðir Orwells eru ótalmargar, sumar þeirra birtust í blöðum og tímaritum á meðan höfundurinn lifði, en aðrar litu ekki dagsins ljós fyrr en eftir dauða hans þegar ritgerðir hans, ritdómar, erindi, blaðagreinar, dagbókarbrot og bréf voru gefin út í mörgum bindum. Viðfangsefnin voru af ýmsu tagi, allt frá veðri og matseld til valdadýrkunar og hegningaraðferða. Bókin Stjórnmál og bókmenntir geymir brot af bestu ritgerðum Orwells á þessu sviði. Greinarnar gefa glögga mynd af honum sem ritgerðasmið, skáldsagnahöfundi, þjóðfélagsgagnrýnanda og bókmenntarýni. Safnið gefur lesandanum þannig heilsteyptari mynd af þeim ólíku viðfangsefnum sem gripu hugsuðinn Orwell. Meðal ritgerða í Stjórnmálum og bókmenntum má finna hugleiðingar Orwells um stjórnmál og hvernig þau tengjast dvöl hans í Búrma, þátttöku hans í spænska borgarastríðinu og friðarstefnu Ghandis. Einnig má lesa um afstöðu hans gagnvart vináttulandsleikjum, þar sem hann færir rök fyrir því að slík iðkun kunni að ýta undir fjandskap og illar kenndir gagnvart mótherjaþjóðinni. Greinar um bókmenntir, ritlist og rithöfundarferil Orwells eru einnig meðal ritgerða í þessu safni. Þar birtast meðal annars áhyggjur hans af tungumálinu sem afvegaleiðandi afli í skilningi á veruleikanum og hvernig vinna má bug á þessari spillingu.

Uggi Jónsson þýddi greinarnar úr ensku en hann hefur áður þýtt verk Orwells og fleiri rit fyrir Bókmenntafélagið. Róbert H. Haraldsson ritar inngang að útgáfunni og gefur lesandanum greinargóða mynd af helstu hugðarefnum Orwells.

Eftir Orwell hafa einnig verið gefin út sem Lærdómsrit Dýrabær og Í reiðuleysi í París og London.