Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Skáldsagan Rútan eftir Eugeniu Almeida er komin út

Skáldsagan Rútan eftir Eugeniu Almeida er komin út

Skáldsagan Rútan eftir Eugeniu Almeida er komin út. Sögusvið bókarinnar er smáþorp í sveitum Argentínu. Í þorpinu sitja ungir elskendur á bar og bíða eftir rútunni. Það gerir Antonio Ponce einnig en systir hans er á förum úr þorpinu. Allt gengur sinn vanagang þar til undarlegir hlutir taka að gerast og enginn getur yfirgefið þorpið. Íbúarnar safnast saman í sínu fínasta pússi til þess eins að sjá rútuna þjóta framhjá kvöld eftir kvöld og andrúmsloftið er þrungið nánast glaðværri, karnivalískri eftirvæntingu. Aðrir íbúar sjá þó myrkari hliðar á málinu.

Rútan er fyrsta skáldsaga Eugeniu Almeida. Hún er fædd árið 1972 í Córdoba í Argentínu. Í Rútunni bregður hún upp ljóðrænni mynd af tíma kúgunar og einræðis í Argentínu. Bókin fangar ógnvekjandi afleiðingar múgsefjunar og afleiðingar þess að líta undan og treysta stjórnvöldum í blindni. Í þorpinu eru vegatálmar settir upp sem hamla för og komu einstaklinga til þorpsins. Þorpið getur verið hvar sem er í heiminum og á hvaða tíma sem er, eins og má teljast ljóst af fréttum síðustu daga. Nú, áratugum seinna, sjáum við söguna endurtaka sig enn og aftur, þegar eitt áhrifamesta ríki heims byggir múra og setur upp tálma á landamærum sínum - með afleiðingum fyrir gervallan heiminn. 

Rútan hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna og verið þýdd á fjölda tungumála. Eugenia Almeida starfar sem blaðamaður, situr í dómnefndum bókmenntaverðlauna og kennir ritlist. Hún hefur gefið út þrjár skáldsögur og ljóðabók.

Þýðandi bókarinnar er Katrín Harðardóttir. Hún er með gráðu í þýðingarfræði frá Háskóla Íslands. Rútan er fyrsta útgefna þýdda skáldsaga hennar. Katrín er í ritstjórn femíníska vefritsins Knuz.is og situr í stjórn Bandalags íslenskra þýðenda og túlka.

Bókina má kaupa hér.

4. febrúar 2017 eftir Dögg Hjaltalín