Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Dagbók kameljónsins

1,990 ISK

Höfundur Birgitta Jónsdóttir

Með því að þvinga sig til að muna fortíðina skapar hún möguleika á að eiga sér einhverja framtíð. Alkóhólismi móður hennar vegur jafnframt þungt í þessu verki og hefur afgerandi áhrif á sjálfmeðvitund söguhetjunnar sem á endanum öðlast þroska til að sjá manneskjuna handan sjúkdómsins sem brýst oft út í mikilli sjálfhverfu þess sem er haldin honum og skilur aðra fjölskyldumeðlimi eftir með því sem næst ósýnilegan geðrænan sjúkdóm sem jafnan er kenndur við meðvirkni. En þetta er engin venjuleg bók, hún er brimfull af von og lausnum, ævintýrum og einlægni og fellur aldrei inn í pytt sjálfsvorunnar.

Bókin er tilraun til að brúa bilið á milli þess myndræna sem oft fyrirfinnst í dagbókum, en formið bíður upp á vægðarlausan heiðarleika og gefur lesandanum tækifæri á að nota sitt eigið hugarflug.

Úr ritdómi Úlfhildar Dagsdóttur á bokmenntir.is Bókin er gefin út sem skáldsaga, þrátt fyrir að æviskrifin séu áberandi þáttur. Ljósmyndir og myndefni leika stóran þátt í verkinu og skapa enn annan áhugaverða flötinn á þessari samþáttun minninga og skáldskapar, en ekki er betur hægt að sjá en að myndirnar sýni höfund á unga aldri.

Sjálf hönnun bókarinnar undirstrikar svo enn viðfangsefnið, en í útliti minnir bókin á lúna dagbók og sumar síðurnar eru línustrikaðar, auk þess sem handskrifuð textabrot birtast meðal teikninga og skyssa. Þessi áferð öll og það hvernig hún styður við innihaldið er augljóslega framhald af vinnu Birgittu með netið sem miðil sem hún yfirfærir á bókina, það er, ekki netið sjálft, heldur áhersluna á miðilinn, það hvernig netið myndar ramma utanum ljóðin. Á sama hátt er bókin öll einskonar bókverk, allt frá ytri hönnun til framsetningar textanna til viðfangsefnis sögunnar.