Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Grísafjörður

3,490 ISK 1,990 ISK

Höfundur Lóa H. Hjálmtýsdóttir

Tvíburarnir Inga og Baldur eru komnir í sumarfrí. Á dagskránni er að drekka kókómalt, glápa á teiknimyndir og slappa af með tilþrifum. Fyrirætlanir þeirra virðast ætla að fjúka út í veður og vind þegar Albert, nágranni þeirra af efstu hæðinni, birtist óvænt í heimsókn hjá þeim. Honum er augljóslega mikið niðri fyrir. Systkinin hafa enga þolinmæði gagnvart þessari hindrun í vegi þeirra en eftir því sem Albert segir þeim meira frá vandamáli, sem hann stendur frammi fyrir, er forvitni þeirra vakin.

Í þessari bráðskemmtilegu, fyndnu og fjörugu bók, sem segir frá ólíklegri vináttu, liggur leiðin allt frá blokkaríbúð í Reykjavík til Ísafjarðar, Alpanna, Guatemala, Glimmerfjalla og síðast en ekki síst – til Grísafjarðar! 

Grísafjörður er fyrsta barnabók Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur sem einnig myndlýsir söguna af sinni alkunnu snilld.

Bókinni fylgja dúkkulísur, límmiðar og póstkort því höfundinum fannst svoleiðis svo skemmtilegt þegar hún var barn!

Grísafjörður var tilnefnd til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs og Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2020! 

Grísafjörður fékk fimm stjörnur í ritdómi Lestrarklefans þar sem meðal annars sagði: 

Grísafjörður einstaklega hlý, einlæg og raunsæ saga um venjulegt fjölskyldulíf. Inga og Baldur eru heillandi persónur sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um ... bráðfalleg bók í alla staði, fyndin, innileg og einlæg. Svo er ekki leiðinlegt að með henni fylgja dúkkulísur til að klippa út, límmiðar og póstkort frá Grísafirði.

Katrín Lilja, Lestrarklefinn

Gagnrýnendur Kiljunnar sögðu söguna vera mjög fallega, ofboðslega góðlega og með notalegum tón. Þau fögnuðu því sérstaklega að Lóa væri farin að skrifa barnabækur og sögðu jafnframt að myndir og útlit bókarinnar væri listilega vel gert!

Í grunninn er þó ærslafull hlýjan og húmorinn sem aðdáendur Lóaboratorium þekkja svo vel allsráðandi og skín bæði gegnum texta og myndir. Bókin er einnig einstaklega vandaður prentgripur úr vönduðum pappír, hún er með áföstum rauðum bókamerkisþræði og aftast er að finna límmiða, dúkkulísur af krökkunum og póstkort frá Grísafirði sem eflaust munu kæta unga lesendur. Niðurstaða: Grísafjörður er skemmtileg og lífleg bók, full af ærslum, hlýju og ævintýrum.

Brynhildur Björnsdóttir, Fréttablaðið


Hér má horfa á innslag um Lóu og verk hennar í Menningu á RÚV

Einnig var fjallað um bókina í útvarpsþættinum Lestarklefanum. Þar sögðu rýnendur meðal annars:

Þvílík ánægja að fá fram svona flott verk frá Lóu. Bæði flottu myndskreytingarnar og textann….sögu sem rígheldur. Viss um að hún muni slá í gegn.

Frumlegt og skemmtilegt. Áreynslulaust og textinn fallegur.

Þakklátt að fá sögu og myndskreytingar úr íslenskum veruleika.

Hún er svo listilega falleg bókin. Aðlaðandi og skemmtileg.

Æ, mér fannst þetta æðisleg bók.