Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Óskilamunir

3,990 ISK

Höfundur Eva Rún Snorradóttir

Ég á erfitt með að einbeita mér að fyrirlestrinum því ég á eftir að svara skeytinu frá henni. Hugsa stöðugt um mögulegar útfærslur á smekklegu daðri samstarfskvenna á fertugs- og fimmtugsaldrinum. Salurinn er ekki fullur og þess vegna mæðir meira á okkur sem þó erum mætt til að veita listafólkinu athygli. Þetta er erlent gagnkynhneigt par að halda powerpoint sýningu á verkum sínum. Hún leiðir talið, talar heldur áherslulaust um þriðja og jafnframt nýjasta verk þeirra: gjörning sem stóð yfir í þrjá sólarhringa og snérist um það að leyfa sér að vera í vondu skapi. Ég held ekki nógu vel athyglinni en mér skilst að fólk hafi komið í kaffi heim til þeirra og fengið að upplifa hana í vondu skapi. 

Óskilamunir – sögur um ástir sem finnast og tapast, hvernig sársauki mótar okkur, um allt það sem brotnar en ekki síst brotin sem enginn vitjar. Hvernig við leitum með veiku ljósi að leið í gegnum þetta ævarandi grímuball sem lífið er.