Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Paradísarmissir

7,990 ISK 4,690 ISK

Höfundur John Milton

Paradísarmissir er stórbrotið söguljóð eftir Englendinginn John Milton (1608‒1674). Verkið kom fyrst út árið 1667 og lítillega endurskoðað 1674, þá í tólf hlutum og er þýðingin gerð eftir þeirri útgáfu.

Kvæðið er gríðarlega efnismikið, íslenska gerðin yfir þrettán þúsund ljóðlínur auk efnislýsinga í lausu máli. Frásögnin spannar alla heimssöguna samkvæmt trúarskilningi kristninnar, allt frá sköpun til dómsdags, en kjarni hennar er syndafallið og klækjabrögð Satans þegar hann freistar Adams og Evu í aldingarðinum. Guð almáttugur, Guðssonurinn og erkienglarnir eru einnig í aðalhlutverkum en aðrar persónur eru ófáar og barátta góðs og ills hatrömm og hörð.

Paradísarmissir hefur haldið nafni Miltons á lofti sem eins af höfuðskáldum enskra bókmennta. Jón Erlendsson hefur nú þýtt þetta stórvirki á þjált og skiljanlegt mál af aðdáunarverðri eljusemi og list, ásamt því að skrifa skýringar, en dr. Ástráður Eysteinsson skrifar inngang um verkið og sögu þess. Útgáfan er prýdd fjölda mynda eftir Gustave Doré.