Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Uppselt

Þar sem óhemjurnar eru

3,990 ISK

Höfundur Maurice Sendak

Þessi vara er ekki fáanleg eins og er

Þar sem óhemjurnar eru er að margra viti ein besta barnabók 20. aldar og hefur selst í næstum því tuttugu milljónum eintaka á veraldarvísu. Bókin er einstök táknsaga um ímyndunaraflið, þennan villta og óhamda stað innra með okkur, og er skreytt ógleymanlegum myndum höfundarins, hins bandaríska Maurice Sendak (1928–2012).

Kvöld eitt fer Max í úlfabúninginn sinn og hegðar sér eins og óhemja. Móðir hans sendir hann í háttinn án þess að drengurinn fái nokkurn kvöldverð. Fljótlega breytist herbergi Max hins vegar í ógnarstóra ævintýraveröld og hann siglir á bát alla leið þangað sem óhemjurnar eru…

Þar sem óhemjurnar eru felur í sér eftirminnilega rannsókn á villieðlinu innra með okkur öllum, flóknu tilfinningalífi barna og óhömdu ímyndunarafli þeirra. Sagan kann að virðast einföld á yfirborðinu en hún dýpkar við hvern lestur.

Bókin var hönnuð af mikilli natni og prentuð samkvæmt ýtrustu gæðakröfum The Sendak Foundation svo að endurprentanirnar af teikningum Sendaks fengju notið sín til fullnustu.

Þetta er í fyrsta skipti sem Þar sem óhemjurnar eru kemur út á íslensku. Þýðandi er Sverrir Norland.

Sígild bók sem á heima í hverjum bókaskáp – ekki aðeins hjá börnum heldur hjá öllum þeim sem unna góðum bókum.