Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Uppruni tegundanna

6,490 ISK

Höfundur Charles R. Darwin

Fáar bækur hafa haft jafnmikil áhrif á vestrænan hugmyndaheim og Uppruni tegundanna.Þessi bók umbylti hugmyndum manna um eðli náttúrunnar og lífs á jörðinni og varð strax frá því hún kom fyrst út árið 1859 tilefni mikilla deilna meðal líffræðinga – en ekki síður guðfræðinga, þar sem þróunarkenningin gekk í berhögg við það grundvallaratriði kristinnar trúar að maðurinn væri kóróna sköpunarverksins og skapaður í mynd guðs almáttugs.

Charles Darwin sigldi umhverfis hnöttinn með herskipinu HMS Beagle frá 1831 til 1836 og rannsakaði dýralíf og jarðlög. Uppgötvanir hans í leiðangrinum og gögnin sem hann safnaði kveiktu fljótlega eftir heimkomuna hjá honum hugmyndina um breytanleika og þróun tegundanna, sem skýrt gat ýmis atriði varðandi gerð og útbreiðslu lífvera. Meðal þess sem vakti athygli hans voru finkustofnarnir á Galapagoseyjum sem hver um sig lifir aðeins á einni eyju en tegundirnar eru mjög áþekkar. Honum þótti hæpið að ætla að Drottinn hefði skapað svo margar svipaðar tegundir og taldi í staðinn að þær væru komnar af einni og sömu tegundinni en hefðu þróast á ólíka vegu eftir að þær einangruðust sín á hverri eyjunni.

Skýringin sem Darwin gaf á þróun tegunda var kenningin um náttúruval; þeir einstaklingar sem best eru lagaðir að umhverfinu verða ofan á í lífsbaráttunni og arfleiða afkvæmi sín að nytsamlegum eiginleikum. Við mótun kenningarinnar horfði hann til kynbóta bænda sem velja til undaneldis þá gripi sem gefa af sér mest kjöt eða mjólk, og hugmyndar Malthusar um framgang hinna hæfustu meðal manna. Niðurstaðan varð ritið sem hérna birtist í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu: Uppruni tegundanna af völdum náttúrulegs vals, eða sumum stofnum vegnar betur en öðrum í lífsbaráttunni.

Þessi gagnmerka bók kemur út í tveimur bindum, með yfirgripsmiklum inngangi eftir Örnólf Thorlacius sem rekur hugmyndir forvera og áhrifavalda Darwins, mótun þróunarkenningarinnar og afdrif hennar eftir hans dag. Bókinni fylgja tveir viðaukar: Ágrip af sögu hugmyndarinnar um uppruna tegundanna eftir Darwin sjálfan og bréf sem Alfred Russel Wallace skrifaði honum árið 1851, þar sem fram koma niðurstöður nánast samhljóma niðurstöðum Darwins og sem varð hvatinn að útgáfu bókarinnar.

Íslensk þýðing: Guðmundur Guðmundsson
Inngangur: Örnólfur Thorlacius