Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Horfinn heimur

8,490 ISK 4,690 ISK

Höfundur Þröstur Ólafsson

Ungur maður kemur beint úr kyrrstæðu samfélagi Húsavíkur upp úr 1960 til að læra hagfræði og er skyndilega staddur í skarkala stórborgarinnar. Hann er kominn til Berlínar; múr milli austurs og vesturs er nýreistur og óuppgerðar sakir nasismans krauma enn. Handan við hornið bíða æskulýðsuppreisn og ókyrrð ’68-kynslóðarinnar. Allt þetta mótar hann fyrir lífstíð.

Þetta er um margt óvenjuleg minningabók. Þröstur er mjög hreinskilinn og óvæginn á köflum, ekki síst við sjálfan sig. Í gegnum allt skín mannúð og rík þörf fyrir að skilja og greina. Lífsstarf Þrastar Ólafssonar hefur verið fjölbreytt á sviði menningar, verslunar og stjórnmála. Hann var í forsvari fyrir Mál og menningu á umbrotatímum, var samverkamaður Guðmundar J. Guðmundssonar hjá Dagsbrún og aðstoðaði ráðherra frá Magnúsi Kjartanssyni og til Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hér er ýmsu lýst sem gerðist á bak við tjöldin þegar miklir atburðir áttu sér stað í þjóðlífinu, átökum og erfiðum samningum. Margvíslegar minningar eru í bókinni um þau sem næst honum stóðu, flestar ljúfar en sumar sárar. Loks lítur hann yfir sviðið og hugleiðir brýnustu verkefni okkar daga, m.a. umhverfismál, en í bókinni er kafli helgaður bróður Þrastar, Guðmundi Páli, hinum þjóðkunna baráttumanni fyrir náttúruvernd, og þeirra nána sambandi.