Allt sundrast
3,990 ISK
Höfundur Chinua Achebe
Allt sundrast kom fyrst út árið 1958 og er talin höfuðrit afrískra bókmennta. Bókin var sú fyrsta í ritröð Heinemanns African Writers Series sem hefur átt mikinn þátt í að vekja athygli á afrískum bókmenntum í hinum vestræna heimi. Hún hefur verið þýdd á 58 tungumál og selst í yfir 20 milljónum eintaka.
Allt sundrast segir sögu hins óttalausa Igbo-stríðsmanns Okonkwos í upphafi nýlendutímans þegar ágengir Evrópumenn ógna heimi ættflokkanna á svæðinu. Skáldsagan fagnar í ár 60 ára útgáfuafmæli og er útgáfa hennar á íslensku löngu tímabær. Hún markar upphafið á því þegar rithöfundar Afríkulanda hófu að segja sína sögu sjálfir en fram að því hafði hún verið skráð af vestrænu fólki.
Chinua Achebe (1930–2013) var einn merkasti rithöfundur Nígeríu og er oft talinn faðir afrískra nútímabókmennta. Hann er þekktastur fyrir „Afríska þríleikinn“ sem samanstendur af skáldsögunum Things Fall Apart (Allt sundrast), Arrow of God og No Longer at Ease, sem segja sögu þriggja kynslóða frá upphafi nýlendutímans í Nígeríu til aukinnar þéttbýlismyndunar og hnignunar hefðbundinnar menningar. Hann skrifaði fjölmargar skáldsögur, ljóð, smásögur, ritgerðir og barnabækur.
Achebe hafði umsjón með útgáfu afrískra skáldverka í Ritröð afrískra höfunda hjá Heinemann-útgáfunni og starfaði sem háskólaprófessor í Bandaríkjunum. Chinua Achebe var gerður heiðursdoktor í yfir 30 háskólum víða um heim. Honum voru einnig veitt þjóðarverðlaun Nígeríu, sem eru æðsta viðurkenning landsins, auk þess sem hann hlaut alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin árið 2007 fyrir stórkostlegt ævistarf.