Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Ísland Babýlon

3,990 ISK

Höfundur Árni Snævarr

Árið 1856 stóð Ísland á tímamótum eftir að Danir höfðu árið áður gefið verslunina frjálsa. Franskir útgerðarmenn, sem gerðu þá út yfir hundrað skip árlega á Íslandsmið, létu þegar í stað reyna á nýfengið frelsi og fóru fram á að stofna 400 manna fiskverkunarstöð á Dýrafirði. Þegar Napóleon prins, frændi Frakkakeisara, kom til Íslands árið eftir töldu margir að það hlyti að vera í tengslum við þessa beiðni, sem fékk heitið Dýrafjarðarmálið. En í reynd var Íslandsferðin liður í leiðangri til að afla fylgis við Skandinavismann; sameiningu allra Norðurlanda.

Málfræðingurinn Þorleifur Repp, ákafur andstæðingur þeirrar hugmyndar, taldi beiðnina í raun lið í að Frakkar vildu sölsa undir sig Ísland. Tókst honum að sannfæra Breta um að þeir hefðu óhreint mjöl í pokahorninu og brugðust Bretar ókvæða við. Jón Sigurðsson forseti var ekki afhuga samningum við Frakka, en varð undir og fór minna fyrir frjálslyndisstefnu hans eftir þetta en áður. Skorin var upp herör gegn Frökkum og danskir kaupmenn og íslenskir bændur tóku höndum saman af ótta við samkeppni um viðskipti og vinnuafl.

Í átökunum sem í hönd fóru skutu upp kolinum viðhorf sem minna á þjóðernspópulisma nútímans með tilheyrandi falsfréttum og hatursáróðri. Og rétt eins og nú voru Rússar skammt undan og beittu málgagni sínu í Evrópu, en Íslendingurinn Ólafur Gunnlaugsson gekk til liðs við blaðið um þetta leyti.

Höfundurinn Árni Snævarr rannsakaði skjalasöfn í Frakklandi, Bretlandi og Danmörku við heimildaöflun og niðurstöður hans bregða nýju ljósi á mikilvæg augnablik í íslenskri sögu.