Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Jón lærði og náttúrur náttúrunnar

0 ISK

Höfundur Viðar Hreinsson

Jón Guðmundsson lærði (1574-1658) var skáld, fræðimaður, læknir, náttúrufræðingur, listaskrifari, málari, tannsmiður, sjálflærður andófsmaður og fyrstur til að skrifa rit á íslensku um náttúru Íslands.

Jón var ofsóttur um hríð vegna afhjúpandi skrifa sinna um Baskavígin 1615 og um miðjan aldur var hann sakaður um galdur og dæmdur í útlegð. Vegna þeirra sakargifta hraktist hann ekki aðeins landshluta á milli, heldur lá leið hans út fyrir landsteina og til Kaupmannahafnar til að hnekkja útlegðardómnum. Síðustu æviárin fékk hann þó næði til að skapa myndverk sem hafa glatast og stórmerkileg ritverk sem hafa varðveist.

Viðar Hreinsson leitar víða fanga í heimildir við að rekja æviferil Jóns og hina mörgu, skapandi þætti í fari hans. Með kjölfestu í fjölþættri mynd af samfélagi, menningu og tíðaranda leiðir listfeng og hugnæm frásögn Viðars lesandann um náttúruskyn Jóns og samtíma hans, þekkingu, skynbragð, hugmyndir og heimsmynd í víðu samhengi evrópskrar hugmyndasögu. Ævi Jóns myndar söguþráðinn en grunntónn verksins er samband hans og samtíðar við náttúruna og undir niðri vitund um þá náttúrudrottnun síðari tíma sem leitt hefur af sér umhverfsvá nútímans.

Viðar hefur hlotið einróma lof fyrir bækur sínar um Bjarna Þorsteinsson og Stephan G. Stephansson. Ævisaga hans um Stephan, sem einnig er til í enskri gerð, hlaut tilnefningar og verðlaun bæði á Íslandi og vestanhafs.