Franska ljóðskáldið Chrétien de Troyes var uppi undir lok 12. aldar. Eftir hann liggja nokkur verk og er Perceval eða Sagan um gralinn hið síðasta. Fátt er vitað um Chrétien annað en það að hann kenndi sig við bæinn Troyes í einu verka sinna og virðist um tíma hafa verið hirðskáld aðalsfólks. Verk hans voru vel þekkt af samtímafólki hans og var hann talinn með fremstu prósaskáldum síns tíma, enda birtist sagan upphaflega á íslensku snemma á 13. öld, að vísu nokkuð stytt. Skrif Chrétiens hafa haft mikil áhrif á þróun miðaldaskáldsögunnar og þetta tiltekna verk hans er talið eitt merkasta bókmenntaverk miðalda. Sagan um gralinn er einnig merkileg fyrir þær sakir að hún er af sumum fræðimönnum talin til fyrstu skáldsagna heimsins.
Sagan um gralinn flokkast undir rómansbókmenntir, sögur sem skrifaðar voru á talmáli en ekki á latínu. Líkt og saga Chrétiens voru rómansbókmenntir einnig oft og tíðum riddarasögur sem sóttu innblástur sinn í ritum Artúr konung, sem voru þá nýlega þýdd af frönskum klerki, og í munnmælasögur og kveðskap úr bretónskum sagnaarfi sem áttu miklum vinsældum að fagna við hirðir konunga og fursta. Ritform Chrétiens varð einstaklega vinsælt og finna má aðrar riddarasögur sem draga dám af verkum hans. Chrétien náði þó ekki að ljúka við Söguna um gralinn og reyndu fjórir ólíkir rithöfundar næstu fimmtíu árin að klára verkið með viðaukum. Þýðing Ásdísar Magnúsdóttur skilur þó við verkið þar sem Chrétien sjálfur skildi við það og leyfir þannig íslenskum lesendum að glíma við mögulega eftirmála sögunnar upp á eigin spýtur.
Sagan segir frá ungum og einföldum dreng, Perceval, sem elst upp hjá móður sinni í skógum Wales langt frá siðmenningunni. Þar rekst hann hvað eftir annað á riddara og dreymir um að gerast slíkur sjálfur. Gegn vilja móður sinnar ákveður Perceval að ferðast til Artúrs konungs þar sem hann sér fyrir sér glæsta framtíð sem einn af riddurum hringborðsins. Þegar þangað kemur grípur hann tækifæri til að ganga í augun á konunginum og er vígður til riddara. Hann leggst svo í ferðalag í leit að hinum heilaga gral og lendir í ótal ævintýrum. Drengurinn er þó einstaklega ólánsamur og tekst illa að laga lífsreglur móður sinnar að þeim aðstæðum sem ævintýrin leiða hann í. Síðari hluti bókarinnar fjallar um Gauvain, sem var einn af bestu riddurum hringborðsins
og frændi Artúrs konungs. Sú saga er þó töluvert styttri en sú fyrri þar sem Chrétien náði ekki að ljúka við verk sitt.
Ásdís R. Magnúsdóttir hefur þýtt verkið listilega úr frummálinu og ritar einnig fróðlegan inngang að bókinni. Íslenskir lesendur fá því nú tækifæri til að kynnast náið þessu merka riti bókmenntasögunnar.