Ritgerð um ríkisvald
3,490 ISK
Höfundur John Locke
Ritgerð Johns Locke um ríkisvald hefur haft sterkari áhrif á stjórnmálasögu Vesturlanda en flestar bækur aðrar. Hugmyndir hans um náttúrulegt jafnrétti allra manna, siðferðilega réttlætingu ríkisvaldsins og takmarkanir þess mótuðu meðal annars hugmyndafræðina sem lá til grundvallar byltingunni í Frakklandi og stofnun Bandaríkjanna og sótt hefur verið í þær æ síðan. Ritgerðin er sígilt verk í stjórnspeki, skrifað til höfuðs kenningum sem þóttust réttlæta alræði valdhafa og á ekki síður erindi við lesendur nú á dögum en við samtímann sem hún á rætur sínar í.
Ritgerðin kom út ásamt öðru verki – hinni fyrri ritgerð um ríkisvald – árið 1689 án þess að höfundar væri getið, enda var stjórnmálaástandið á Bretlandseyjum eldfimt um þær mundir. Neyddist Locke jafnvel til að fara huldu höfði í Hollandi um sex ára skeið, þar sem hinir ensku valdhafar beittu sér hart gegn hverjum þeim sem vefengdi það að vald þeirra væri algjört og komið frá sjálfum Guði. Locke var virkur þátttakandi í stjórnmálum, sennilega í ríkari mæli en nokkur annar jafnáhrifamikill stjórnspekingur, og lifði það að sjá áhrif hugmynda sinna á stjórnskipan samtíma síns. Kjarninn í kenningu hans er að menn séu náttúrulega frjálsir en geri með sér samfélagssáttmála, samkomulag um að fylgja einum lögum, og framselja til samfélagsins réttinn til að verja líf sitt og eigur. Hlutverk ríkisins er þannig að verja náttúruleg réttindi fólks og mönnum er heimilt að rísa upp gegn valdhafa, ef hann bregst þessu hlutverki eða gengur á rétt borgaranna. Siðferðileg réttlæting ríkisins út af fyrir sig er fólgin í því að það hefur umboð borgaranna til lagasetningar, en þar sem enginn getur veitt eða haft umboð til að ganga á mannréttindi fellur þetta umboð úr gildi, reyni stjórnvöld að hlutast til um þau.
Hugmyndir um náttúrurétt höfðu reyndar verið til frá miðöldum en upp úr siðaskiptum tóku þær að víkja fyrir alræðishugmyndum. Locke jók þó við eldri kenningar og útfærði sína eigin. Inn í hana fellir hann meðal annars greinargerð fyrir tilurð eignarréttarins, rökstuðning fyrir meirihlutaræði og fyrir aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdavalds, auk endurskilgreiningar á ríkinu.
John Locke telst til helstu heimspekinga Breta fyrr og síðar. Auk stjórnspekinnar er hann þekktur fyrir framlag sitt til þekkingarfræði en Ritgerð hans um mannlegan skilning (“An Essay Concerning Human Understanding”) er grundvallarrit breskrar raunhyggju. Í heimspeki Lockes má víða sjá merki trúarinnar á skynsemi mannsins, framfarir og aðferðir náttúruvísindanna og sver hann sig þar með í ætt upplýsingarmanna.
Ritgerð um ríkisvald fylgir inngangur þýðandans, Atla Harðarsonar, þar sem kenningar Lockes eru settar í samhengi við lífshlaup hans og stjórnmálasögu 17. aldar.