Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

SAMRÆÐUR UM TRÚARBRÖGÐIN

3,490 ISK

Höfundur David Hume

Heimspekingurinn David Hume má teljast einn merkasti hugsuður 18. aldar og er fyrst og fremst kunnur af efahyggju sinni og veraldarhyggju, en einnig telst hann til helstu merkisbera breskrar raunhyggju. Eitt meginrita hans, Rannsókn á skilningsgáfunni, þar sem fjallað er um þessi efni, hefur einnig komið út í röð Lærdómsrita. Rit hans um trúarbrögðin hefur þó einnig orðið áhrifamikið og verið talið til bestu verka hans. Þótt Hume hætti ekki á að gefa út í lifanda lífi verk sem hyggi svo fast að stoðum kristindómsins, varði hann banalegunni í að betrumbæta ritið og gera ráðstafanir til að það mætti koma fyrir augu almennings, sem það gerði fyrst árið 1779.

Í bókinni hafnar Hume því að hægt sé að uppgötva nokkuð um heiminn án tilstuðlunar skynfæranna. Þar með talin er þá einnig tilvist Guðs, sem hann telur að sé ávallt leidd af forsendum handan reynslunnar. Verkið hefur form tólf samræðna þar sem takast á Kleanþes, málsvari hinna svonefndu skipulagsraka fyrir tilvist Guðs, Demea, dulhyggjumaður sem vill byggja trúna á opinberun, og loks efasemdamaðurinn Fílon, sem má telja næsta öruggt að tali fyrir munn höfundarins sjálfs.

Skipulagsrökin, sem voru um um langa hríð veigamestu rök kirkjunnar manna, felast í því að hin flókna gerð heimsins hljóti að eiga sér sambærilega orsök við manngerðar vélar, það er að segja hugvit vitsmunaveru, en sá hugur sem gert hefur heiminn hljóti að vera miklum mun stórkostlegri en mannshugurinn og tilheyri því guðlegri veru. Rökin eru talin hafa það helst til síns ágætis að þau séu einmitt reist á reynslu okkar af heiminum. Þetta hrekur Hume þó með afgerandi hætti. Hann bendir meðal annars á að við getum ekki dregið ályktun um orsök hlutar ef við höfum aðeins reynslu af afleiðingunni. Ályktanir okkar um orsakasamband byggjast á reynslu af því að sams konar fyrirbæri fari saman og í tilfelli Guðs er ekkert til sem er sambærilegt, og raunar þekkjum við líka aðeins einn heim. Í samræðunum sem á eftir fara koma fram ýmsar snjallar röksemdafærslur með og á móti tilvist Guðs, sem verðugar eru umhugsunar enn í dag, þrátt fyrir að aðstæður hafi breyst frá tímum Humes.

Í inngangi að Samræðum um trúarbrögðin fjallar Páll S. Árdal ítarlega um efni verksins og ævi og hugsun höfundarins.

Þýðing: Gunnar Ragnarsson.