Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Þriðja miðið

1,990 ISK

Höfundur Arianna Huffington

Kulnun í starfi - endurmetum velgengni

Í apríl 2007 rankaði fjölmiðlakonan Arianna Huffington við sér þar sem hún lá í blóðpolli á skrifstofu sinni. Hún hafði örmagnast eftir þrotlausa vinnu við að koma fyrirtæki sínu, Huffington Post, á laggirnar. Í kjölfarið hóf hún gagngera sjálfsskoðun og tók að endurmeta hvað raunverulega felst í velgengni. Hvað peninga og völd varðaði gekk henni vel en hún fór að efast um að það væri skynsamleg skilgreining á velgengni í lífinu. Hún skrifaði bók um reynslu sína, Þriðja miðið, og hún er nú komin út hjá bókaútgáfunni Sölku. Í henni gerir Huffington aðför að úreltum hugsunarhætti sem mótar samfélag okkar og kynnir ný viðmið á aðgengilegan hátt og tekur fjölda dæma máli sínu til stuðnings.


Huffington boðar nýja lífsýn og byggir hana á vísindalegum niðurstöðum á sviði sálfræði, svefnrannsókna og lýðheilsu, svo eitthvað sé nefnt. Þær sýna óumdeilanlega kosti íhugunar, núvitundar og gjafmildi. Hún talar fyrir byltingu í menningu okkar - hvernig við hugsum, hvernig við vinnum og hvernig við lifum og hvetur okkur til að bregðast við eigi síðar en núna.


Arianna Huffington er stofnandi og aðalritstjóri Huffington Post og ein áhrifamesta konan í heiminum í dag. Henni hefur tekist að gera Huffington Post að einum þekktasta fjölmiðlinum á alþjóðavísu í dag. Huffington er blaðamaður og hefur skrifað fjölda bóka en Þriðja miðið er langvinsælasta bók hennar. Hún hefur selst í milljónum eintaka, var efst á metsölulista New York Times og hefur verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál.  


Í Þriðja miðinu ræðir hún eigin hindranir og áskoranir við að samræma frama og fjölskyldulíf á hreinskilinn hátt.

 

 

 

Byltingin er hafin

Frá árdögum hefur velgengni verið mæld í tvennu; peningum og völdum. Það hefur aldrei verið ljósara en á síðustu áratugum. Nú eru hins vegar blikur á lofti og róttækar breytingar eiga sér stað í vestrænum samfélögum. Raunar heyrum við fréttir af þessum breytingum nánast daglega; Svíar ætla að stytta vinnudaginn í sex tíma á dag, starfsmenn Íslandsbanka mála kaffistofu Samhjálpar á vinnutíma, starfsmenn Google fá sér hádegisblund í hengirúmum eða taka hundinn sinn með sér í vinnuna, starfsfólk er hvatt til að lengja matartíma sinn til að stunda líkamsrækt o.s.frv. Ástæður þessara breytinga eru augljósar - þær borga sig. Viðhorf okkar til velgengni sem byggir á peningum og völdum er orðið úrelt og við fetum hægt í áttina að nýjum viðmiðum. Arianna Huffington gerir þetta að umfjöllunarefni sínu í bókinni Þriðja miðið (e. Thrive). Huffington hvetur lesendur til að endurskilgreina staðnað viðhorf til velgengni. Hún talar fyrir byltingu í menningu okkar, hvort sem er í starfi eða einkalífi og styður mál sitt með niðurstöðum rannsókna á svefni, lýðheilsu og sálfræði svo eitthvað sé nefnt. Öðrum þræði byggir hún frásögn sína á reynslu sinni og fyrrum kollega af að vinna í umhverfi sem byggir á fyrrnefndum máttarstólpum, peningum og völdum. Að mati Huffington þurfum við að breyta hvernig við hugsum, hvernig við lifum og hvernig við vinnum. Og við þurfum að bregðast við eigi síðar en núna. Þriðji máttarstólpinn er vellíðan.

Heilbrigðir starfsmenn: heilbrigð afkoma

Á vestrænum vinnustöðum í dag má sjá tvo ólíka heima mætast. Það má raunar segja að þeir séu í fullkominni andstöðu hver við annan. Í öðrum þeirra má merkja þætti sem tengjast kulnun órjúfanlegum böndum. Sá heimur er er heltekinn af ársfjórðungslegum afkomuskýrslum, hámörkun skammtímahagnaðar og því að fara fram úr vaxtarspám. Í honum er það merki um dugnað að sofa lítið, vinna mikið og vera stöðugt tengdur, svara tölvupóstum á miðnætti og að fyrsta dagsverkið sé iðulega að kíkja á símann.

Hinn heimurinn hefur brugðist við. Í honum er það sýnt og sannað að heilbrigðir og hamingjusamir starfsmenn skila fyrirtækjum heilbrigðri afkomu. Streita og sú skoðun að dugnaður sé mældur í hversu langan vinnudag starfsmaður vinnur er helsti óvinurinn. Sífellt fleiri fyrirtæki, þar á meðal mörg hverra sem njóta hvað mestrar velgengni í heiminum í dag, hafa tekið ákvörðun um að t.d. stytta vinnudaga, gefa starfsfólki tækifæri á að vinna góðgerðarstörf á vinnutíma, verja tíma með fjölskyldum sínum, hvílast og fræðast. Árangurinn lætur ekki á sér standa.

Heilsan og hamingjan að veði

Afkoma fyrirtækja, til langs tíma litið, og líðan starfsmanna helst í hendur. Ef litið er á þetta sem óskylda hluti er hætt við að það verði greitt með dýru gjaldi. Fyrirtækin greiða það gjald með dvínandi framleiðni, spekileka (e. brain drain) og að lokum þverrandi tekjum. Starfsmenn leggja hins vegar heilsu sína og hamingju að veði. Kulnun í starfi er raunverulegt vandamál í nútímasamfélögum og streita er eitt af algengustu vinnutengdu heilsuvandamálunum sem fólk leitar sér læknisaðstoðar vegna. Það eru engin ný sannindi að heilsugæsla þjóða kostar samfélagið gífurlegar fjárhæðir á ári hverju. Fyrirtæki ættu að sjá leik á borði og sinna raunverulegri heilsurækt starfsmanna sinna og uppskera margfalt.



Fyrir skemmstu bárust fréttir handan Atlantshafsins. Arianna Huffington, stofnandi og aðalritstjóri Huffington Post, ætlar að venda kvæði sínu í kross og hefur stofnað fyrirtækið Thrive Global sem einbeitir sér að því að breiða út boðskap Þriðja miðsins. Thrive Global verður í ráðgjafarhlutverki hjá þeim fyrirtækjum sem ætla sér að innleiða heilbrigðari starfshætti og endurmeta velgengni - á arðsaman hátt fyrir alla. Hulunni verður svipt af Thrive Global 30. nóvember næstkomandi. Bylting til hins betra er í vændum.

 

 


Ekki rembast við að klífa metorðastigann, endurskilgreindu frekar velgengni. Heimurinn þarfnast þess nauðsynlega. - Arianna Huffington

Útgáfuár: 2016

Gerð: Kilja

Síðufjöldi: 240

Saga Hrundar Gunnsteinsdóttur sem vann sig í þrot

Flott endurmat á velgengni á vef Viðskiptablaðsins

Peningar og völd eru ekki nóg, umfjöllun á Smartlandi

Svefnleysi, hinar nýju reykingar, umfjöllun á Smartlandi