Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld Sölku - Hvað ef? og Farsótt

BÓKAKVÖLD SÖLKU - ALLA MIÐVIKUDAGA TIL JÓLA!

Það er komið að bókakvöldi Sölku! Það má með sanni segja að kvöldið verði fróðlegt en gestir okkar að þessu sinni eru Valur Gunnarsson og Kristín Svava Tómasdóttir og kvöldið verður því með sagnfræðilegri yfirskrift.

Bókakvöldið verður miðvikudaginn 9. nóvember kl. 20 í bókabúð Sölku, Hverfisgötu 89-93. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Fræðandi umræður, bækurnar á góðum kjörum og bókabarinn að sjálfsögðu opinn.

Valur sendi fyrir skemmstu frá sér bókina Hvað ef? sem veltir upp spurningum á borð við: hvað ef Róm hefði ekki fallið, Hitler hefði unnið, Bítlarnir hefðu aldrei verið til, Lenín hefði lifað lengur, ekkert hrun orðið á Íslandi, víkingar hefðu sigrað heiminn og Jörundur hefði hengt einhvern?

Í þessari frumlegu bók er kafað í lykilatburði í mannkynssögunni og skoðað hvernig þeir hefðu hugsanlega getað farið öðruvísi og hvað hefði þá getað gerst í framhaldinu.

Farsótt heitir nýja bókin hennar Kristínar Svövu en hún segir frá húsi sem á sér viðburðaríka sögu. Það var byggt árið 1884 sem fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga. Síðar var það gert að farsóttaspítala og geðsjúkrahúsi og seinast að gistiskýli fyrir heimilislausa.

Sögð er saga borgar og velferðarkerfis en ekki síst saga af fólki: Sjúklingum og hjúkrunarkonum, læknum og ljósmæðrum, hómópötum, þurfamönnum, vinnukonum, verkamönnum, útigangsmönnum, sjómönnum, lögreglumönnum, miðlum og skáldum. Aðalpersóna bókarinnar er þó gamla timburhúsið sem enn gengur undir sínu dulúðuga nafni: Farsótt.

5. nóvember 2022 eftir Dögg Hjaltalín