Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Salka opnar bókabúð á Hverfisgötu!

Salka opnar bókabúð á Hverfisgötu!

Salka hefur opnað nýja bókabúð á Hverfisgötu 89-93. Í henni má finna bækur íslenskra útgefenda og einnig úrval erlendra bóka. Eigendur Sölku eru Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín en þær eru alvanar bóksölu og kynntust meira að segja í bókabúð. Mikið er lagt upp úr notalegu andrúmslofti í búðinni enda eiga bókabúðir að vera skemmtilegur staður að heimsækja. Í bókabúð Sölku verður mikið líf og fjör, reglulegir viðburðir á borð við upplestra, útgáfuhóf, vínkynningar, krakkafjör og svo mætti lengi telja.

Verið hjartanlega velkomin. Opið er frá 11-18 á virkum dögum og 12-16 á laugardögum!10. júní 2021 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Grísafjörður tilnefnd til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs

Grísafjörður tilnefnd til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs

Lóa Hjálmtýsdóttir er tilnefnd til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Grísafjörð!

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: Undursamlegt hversdagslíf er aðalsmerki þessarar fallegu og hjartahlýju bókar.

Bóksalar segja Grísafjörð og Íslandsdætur bestu barnabækurnar!

Bóksalar segja Grísafjörð og Íslandsdætur bestu barnabækurnar!

Árlega velja bóksalar landsins bestu bækurnar í hverjum flokki fyrir sig. Það er með miklu stolti og gífurlegri ánægju sem við tilkynnum að í flokki bestu íslensku barnabókanna lenti Grísafjörður eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur í fyrsta sæti og Íslandsdætur eftir Nínu Björk Jónsdóttur og Auði Ýri Elísabetardóttur í öðru sæti!

Innilegar hamingjuóskir kæru höfundar! Það er mikill heiður að hljóta þessi verðlaun sem valin eru af fólkinu sem brennur fyrir bækur og umgengst þær alla sína daga. 

 

20. desember 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Lóa tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Lóa tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Lóa H. Hjálmtýsdóttir er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bók sína, Grísafjörð! Í umsögn dómnefndar segir um verkið:

„Hlý og afar skemmtileg saga, raunsæ en þó með heillandi ævintýrablæ. Saga um hversdagsleikann með öllum sínum áskorunum og fólkið sem skiptir okkur mestu máli, en líka vináttu úr óvæntri átt, hjálpsemi og það að engum er alls varnað. Vandaðar myndir höfundar bæta heilmiklu við söguna ásamt fallegum frágangi og sniðugum fylgihlutum.“

Til hamingju Lóa!

 

7. desember 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Ný verslun Sölku á Suðurlandsbraut 6!

Ný verslun Sölku á Suðurlandsbraut 6!

Salka hefur opnað pop-up verslun að Suðurlandsbraut 6 í næsta húsi við skrifstofur bókaútgáfunnar. Búðin verður opin fram að jólum, alla virka daga frá 12-17 og frá 13-16 á laugardögum.

Í nýju Sölkubúðinni er vítt til veggja, hátt til lofts og rúmt á milli borða þannig að auðvelt er að halda góðri fjarlægð og allra sóttvarna er gætt í hvívetna. „Hingað getur fólk komið og sótt bækurnar sem pantaðar eru í vefverslun okkar eða keypt þær beint á staðnum. Aðgengi er gott og við erum sveigjanlegar og afgreiðum fólk úti í bíl ef þess er óskað!“ segja Anna Lea og Dögg, eigendur Sölku, sem standa vaktina í aðdraganda jólanna.

Í búðinni má finna fjölbreytt úrval bóka sem Salka hefur gefið út á þeim 20 árum sem útgáfan hefur verið starfrækt. „Við leggjum mikið upp úr að hafa notalegt andrúmsloft í búðinni enda eiga bókabúðir að vera skemmtilegur staður að heimsækja. Höfundar okkar afgreiða og árita og það er alltaf heitt á könnunni,” bæta þær við og taka fram að fyrstu hundrað viðskiptavinir búðarinnar fá fallega bókagjöf. Verið hjartanlega velkomin!7. nóvember 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Grísafjörðurinn hennar Lóu

Grísafjörðurinn hennar Lóu

Grísafjörður eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur er komin út hjá Sölku. Bókin er fyrsta barnabók Lóu og hún myndlýsir einnig söguna af sinni alkunnu snilld.

Grísafjörður segir frá tvíburunum Ingu og Baldri sem eru komnir í sumarfrí. Á dagskránni er að drekka kókómalt, glápa á teiknimyndir og slappa af með tilþrifum. Fyrirætlanir þeirra virðast ætla að fjúka út í veður og vind þegar Albert, nágranni þeirra af efstu hæðinni, birtist óvænt í heimsókn hjá þeim. Honum er augljóslega mikið niðri fyrir. Systkinin hafa enga þolinmæði gagnvart þessari hindrun í vegi þeirra en eftir því sem Albert segir þeim meira frá vandamáli, sem hann stendur frammi fyrir, er forvitni þeirra vakin.

Í þessari bráðskemmtilegu, fyndnu og fjörugu bók, sem segir frá ólíklegri vináttu, liggur leiðin allt frá blokkaríbúð í Reykjavík til Ísafjarðar, Alpanna, Guatemala, Glimmerfjalla og síðast en ekki síst – til Grísafjarðar! 

31. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Framúrskarandi Íslandsdætur

Framúrskarandi Íslandsdætur

Íslandsdætur eftir Nínu Björk Jónsdóttur er komin út! Í henni er sögð saga rúmlega 40 framúrskarandi kvenna sem spanna tímann allt frá upphafi byggðar á Íslandi til dagsins í dag. Bókin segir meðal annars frá Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu nafnkenndu landnámskonunni, Fjalla-Höllu sem dvaldi áratugum saman á hálendinu á flótta undan réttvísinni, Vilhelmínu Lever fyrstu íslensku konunni sem kaus í kosningum (heilum 19 árum áður en konur fengu þann rétt) og Ástu málara sem einsetti sér að finna starf þar sem hún fengi borgað sömu laun og karlmaður og varð fyrst Íslendinga til að ljúka meistaraprófi í iðngrein. Í bókinni má einnig lesa um fyrstu konurnar sem gerðu ritstörf, myndlist, tónsmíðar, leiklist og höggmyndalist að starfsvettvangi sínum, sem og frá fyrsta kvenprófessornum, fyrstu konunni sem lauk einkaflugmannsprófi, fyrstu konunum sem tóku sæti í borgarstjórn, Alþingi, ríkisstjórn og fyrstu konunni til að verða forseti Íslands. Hér er einnig sögð saga kvenna sem hafa skarað fram úr í íþróttum og listum, hafa ekki látið erfiðar aðstæður stöðva sig eða hafa komist til æðstu metorða á sínu sviði. Yngstu konurnar í bókinni eru rétt að byrja að láta til sín taka.
31. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Dýrmætar minningar um dýrmætar manneskjur

Dýrmætar minningar um dýrmætar manneskjur

Klettaborgin er komin út. Sólveig Pálsdóttir var ung send í sveit austur í Skaftafellsýslu og dvaldi í mörg ár sumarlangt á bænum Hraunkoti í Lóni. Segja má að tveir heimar hafi búið í Sólveigu alla tíð. Á veturna bjó hún í Vesturbænum en dvaldi einnig löngum á Bessastöðum þar sem afi hennar var forseti Íslands. Klettaborgin byggir á minningum Sólveigar frá æsku og fram undir tvítugt og persónugalleríið er fjölbreytt. Hún skrifar um fólk og atburði, sem hafa haft áhrif á líf hennar, og lýsir horfnum heimi og annars konar lífsgildum en við þekkjum í dag.  

Sólveig hefur hingað til skrifað glæpasögur við góðan orðstír. Hún hefur sent frá sér bækurnar Leikarinn, Hinir réttlátu, Flekklaus, Refurinn og Fjötrar en fyrir þá síðastnefndu hlaut hún Blóðdropann, verðlaun fyrir bestu glæpasögu ársins 2019. Nú leitar hún á ný mið og rifjar með hrífandi og kærleiksríkum hætti upp atburði frá uppvaxtarárum sínum. Klettaborgin geymir fallegar sögur og dýrmætar minningar um dýrmætar manneskjur.

31. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Góð samskipti eru lykillinn að velgengni

Góð samskipti eru lykillinn að velgengni

Samskipti eftir Pálmar Ragnarsson er komin út. 

Góð samskipti eru lykillinn að velgengni og þau opna fjölmargar dyr. Þau eru það mikilvægasta sem við getum tileinkað okkur og hafa áhrif á alla þætti lífs okkar. Með færni í samskiptum gerum við lífið einfaldara og skemmtilegra, fækkum árekstrum og auðveldum okkur að kynnast fólki og ná markmiðum okkar. 

Samskipti er leiðarvísir að jákvæðum samskiptum á mörgum sviðum, hvort sem er í einkalífinu, á vinnustað eða í félagslífinu. Farið er ítarlega yfir alls kyns samskipti milli einstaklinga, samskipti í hópum, hagnýtar aðferðir í samskiptum við börn, samskipti við ókunnuga og samskipti á netinu. Í bókinni má finna ótal góð ráð, æfingar, hugleiðingar og dæmisögur til að auka færni okkar á sviði samskipta. Samskipti á erindi við alla því með góðum aðferðum í samskiptum getum við gert okkar eigið líf betra á sama tíma og við bætum líf fólksins í kringum okkur.

28. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bók sem fagnar fjölbreytileikanum!

Bók sem fagnar fjölbreytileikanum!

Barnabókin Vertu þú! eftir Ingileifu Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur er komin út. Í bókinni eru sagðar litríkar sögur af fjölbreytileikanum. Sögurnar skapa frábæran umræðugrundvöll um rétt okkar til að vera eins og við viljum vera og þeim er ætlað að auka víðsýni og hvetja til fordómaleysis. Sögur bókarinnar byggja margar á raunverulegu fólki og fjölskyldum. 


„Eftir að hafa ítrekað rekið okkur á það að barnabækur gerðu ekki ráð fyrir okkar fjölskylduformi ákváðum við að okkur langaði að bæta úr því,“ segir Ingileif.

21. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir