Gleðileg jól

Gleðileg bókajól.

Við verðum með lokað milli jóla og nýárs en svörum símtölum og póstum með glöðu geði.

Opnum aftur 3. janúar, sjáumst þá.

29. desember 2017 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Stóra bókin um sous vide uppseld hjá útgefenda

Stóra bókin um sous vide uppseld hjá útgefenda

Stóra bókin um sous vide hefur slegið í gegn og er mest selda matreiðslubókin fyrir jólin. Bókin seldist upp hjá útgefenda fyrir jólin og er búin í flestum verslunum. 

Bókin verður prentuð aftur en ekki er komin dagsetning á hvenær hún verður aftur fáanleg. 

Í Stóru bókinni um sous vide leiðir verðlaunakokkurinn Viktor Örn Andrésson matgæðinga í allan sannleika um undraheim sous vide. Í áraraðir hafa bestu veitingahús heims reitt sig á tæknina af einföldum ástæðum; matreiðslan er auðveld en skilar engu að síður nákvæmni, hreinleika og bragðið nýtur sín í ystu æsar.
Í bókinni eru leyndarmál matreiðslumeistara afhjúpuð, allt frá hinni fullkomnu steik til crème brûlée á heimsmælikvarða. Hún er sniðin að þeim sem brenna af áhuga og metnaði fyrir matreiðslu og nú geta allir orðið meistarakokkar í eldhúsinu heima.
Viktor Örn Andrésson er margverðlaunaður matreiðslumaður sem hefur stundað sous vide eldamennsku til fjölda ára. Hann hefur starfað á Michelin-stöðum, verið valinn matreiðslumaður Íslands og Norðurlanda og árið 2017 hafnaði hann í þriðja sæti í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d’Or.   
24. desember 2017 eftir Dögg Hjaltalín
Salka opnar glæsilega verslun

Salka opnar glæsilega verslun

Salka hefur opnað uppþeytibúð (pop-up) að Suðurlandsbraut 4 þar sem bókaútgáfan er til húsa. Opið verður í búðinni til jóla. Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín, eigendur Sölku, eru báðar alvanar bóksölu enda hafa þær báðar starfað sem verslunarstjórar í Bókabúð Máls og menningar og kunna því ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Ástæðan fyrir að þær ákváðu að opna búð er einföld. “Skemmtilegasta starf í heimi er að vera bókaútgefandi. Fast á hælana fylgir svo að vera bóksali, sér í lagi í desember. Þegar það losnaði flott rými á jarðhæðinni hjá okkur vorum við ekki lengi að stökkva á það.” segja þær.


Í búðinni má finna fjölbreytt úrval bóka ásamt vandaðri gjafa- og hönnunarvöru. “Við erum umkringdar hæfileikaríku fólki sem er að gera frábæra hluti þannig að þótt aðdragandinn að opnuninni hafi verið stuttur er búðin þegar vel búin af fallegu íslensku handverki, listaverkum og að sjálfsögðu góðum bókum. Við leggjum mikið upp úr að hafa notalegt andrúmsloft í búðinni enda eiga bókabúðir að vera skemmtilegur staður að heimsækja. Við erum með pool-borð sem fólk getur tekið leik á, plötuspilara svo að allir geti fengið sitt óskalag, höfundar okkar afgreiða og árita og það er alltaf heitt á könnunni,” bæta þær við og taka fram að fyrstu hundrað viðskiptavinir búðarinnar fá fallega bókagjöf.

Verið velkomin!

6. desember 2017 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Besti matreiðslumaður Íslands skrifar bók um sous vide

Besti matreiðslumaður Íslands skrifar bók um sous vide

Í Stóru bókinni um sous vide afhjúpar verðlaunakokkurinn Viktor Örn Andrésson leyndarmál matreiðslumeistara. Í áraraðir hafa bestu veitingahús heims eldað með sous vide af einföldum ástæðum; matreiðslan er auðveld en skilar engu að síður fullkomlega elduðu hráefni og bragðið nýtur sín til fulls. Í bókinni eru fjölbreyttar uppskriftir við allra hæfi, allt frá safaríkum steikum til crème brûlée á heimsmælikvarða og fullkomna fiskinum að gómsætu grænmeti og ávöxtum. Stóra bókin um sous vide er fyrir þá sem brenna af áhuga fyrir góðum mat. Nú geta allir orðið meistarakokkar í eldhúsinu heima með lítilli fyrirhöfn.

Viktor Örn Andrésson er margverðlaunaður matreiðslumaður sem hefur eldað með sous vide til fjölda ára. Hann hefur starfað á Michelin-veitingastöðum og verið matreiðslumaður Íslands árið 2013 og Norðurlanda árið 2014. Árið 2017 vann hann til bronsverðlauna í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d’Or.  

Stóra bókin um sous vide er sannkallað grundvallarrit og hentar bæði byrjendum sem lengra komnum. Í henni má finna veglegan inngangskafla með góðum ráðum og upplýsingar um helstu tæki og tól. Glæsilegar ljósmyndir eftir Karl Petersson prýða bókina sem inniheldur meira en 150 ljúffengar og fjölbreyttar uppskriftir eftir einn fremsta matreiðslumann Íslands.

Hér er hægt að kaupa bókina og sjá úr henni. 

23. nóvember 2017 eftir Dögg Hjaltalín
Salka skorar á íslenska tónlistarmenn að nota íslensk ljóð í texta

Salka skorar á íslenska tónlistarmenn að nota íslensk ljóð í texta

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu skorar Salka bókaútgáfa á alla tónlistarmenn að nota íslensk ljóð í texta við lög sín. Til að fylgja áskoruninni eftir ætlar Salka að gefa tónlistarmönnum 50 eintök af Ljóðasafni Tómasar Guðmundssonar. Allir tónlistarmenn geta nálgast ókeypis eintök á bási Sölku á Bókamessu í Hörpu um næstu helgi og í framhaldinu verða þau eintök sem eftir eru send til valdra tónlistarmanna.

Með þessu framtaki vonast Salka til að brúa bil á milli kynslóða, gefa ljóðinu byr undir báða vængi og tengja unga tónlistarmenn betur við þjóðskáldin.

Salka vill leggja áherslu á íslenskt mál, heiðra tónlistarmenn sem eru að ná framúrskarandi árangri um þessar mundir og sýna um leið íslenskunni þann heiður sem hún á skilið.  

Jakob Frímann Magnússon, formaður STEF:

“Við tónlistarmenn fögnum þessu framtaki af heilum hug og teljum mikilvægt að tengja enn frekar saman okkar mikilfenglega íslenska menningararf og sívaxandi sköpunargleði íslenskra tónlistarmanna. Það eru forréttindi að fá texta íslenskra stórskálda á borð við Tómas til að veita okkur innblástur um ókomna tíð enda leita tónlistarmenn víða fanga við textagerð nú um stundir.”

Um Ljóðasafn Tómasar Guðmundssonar:

Nýlega kom út Ljóðasafn Tómasar Guðmundssonar hjá Sölku en það hafði verið ófáanlegt um árabil. Tómas er eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga en hann gaf út fyrstu ljóðabók sína, Við sundin blá, 24 ára gamall en útgefnar ljóðabækur hans áttu eftir að verða fimm talsins og birtast þær hér í einni bók. Þekktasta ljóðabók Tómasar er án efa Fagra veröld sem sló eftirminnilega í gegn og gerði Tómas að þjóðskáldi í einni svipan.

Ljóðheimur Tómasar er heimur fegurðar, samræmis og rómantíkur en ljóð hans eru einnig jarðbundin, ákveðin, kímin, háðsk og ort með gífurlegri nákvæmni. Tómas er iðulega nefndur Reykjavíkurskáldið enda var höfuðborgin yrkisefni hans í mörgum ljóðanna.

Ljóðabækur Tómasar hafa lengi verið ófáanlegar en koma nú fyrir sjónir lesenda í nýjum búningi með formála eftir Sölva Björn Sigurðsson.

17. nóvember 2017 eftir Dögg Hjaltalín
Óhugnaðurinn sem býr í einangruninni

Óhugnaðurinn sem býr í einangruninni

Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er komin út hjá Sölku. Ung erlend kona hefur horfið sporlaust og það er engu líkara en að hún hafi aldrei verið til.

Guðgeir starfar sem öryggisvörður á Höfn í Hornafirði en hann reynir að láta lítið á sér bera eftir að mál sem hann tengdist innan rannsóknarlögreglunnar varð áberandi í fjölmiðlum og hann var sendur í ótímabundið leyfi frá starfi.

Refurinn er fjórða glæpasaga Sólveigar Pálsdóttur. Í bókinni tæpir Sólveig á málefnum innflytjenda á Íslandi. Hún fjallar um óhugnaðinn sem býr í einangruninni, þá sem eiga erfitt að fóta sig í samfélaginu, varnarleysið og óöryggið sem því fylgir sem og þá sem notfæra sér það.

Sólveig Pálsdóttir er menntaður leikari og bókmenntafræðingur. Hún starfaði sem framhaldsskólakennari í 17 ár og hefur komið að ýmsum menningarverkefnum. Hún hefur skrifað fjórar skáldsögur og tvær þeirra hafa komið út í Þýskalandi.

Hér er hægt að kaupa Refinn og lesa fyrsta kaflann í bókinni. 

15. nóvember 2017 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Flautað til leiks

Flautað til leiks

Verið velkomin að fagna útgáfu Tvíflautunnar eftir Jón Sigurð Eyjólfsson með okkur laugardaginn 21. október í Mengi við Óðinsgötu. Gleðin hefst kl. 17 og það verða léttar veitingar á boðstólum og lifandi tónlist. Allir velkomnir!

Um Tvíflautuna:
Ungur Vestfirðingur ákveður að freista gæfunnar á suðrænum slóðum og heldur til Grikklands. Hann ræður sig í vinnu á veitingastað sem reynist öllu heldur vera menningarsetur þar sem fjölskrúðugar og litríkar persónur fylla hvern krók og kima. Grískar dívur, ástríðufullir tónlistarmenn, drykkfelldir samstarfsmenn og ráðríkir Grikkir koma æðandi inn í líf hins óharðnaða Íslendings og útkoman getur ekki orðið önnur en hlægilegur hellenskur harmleikur. 

Tvíflautan byggir á fimm ára dvöl höfundar í Aþenu og er skáldleg frásögn af lífinu á framandi slóðum. Tvíflautan er saga af ást, heimspeki, tónlist og tímabæru andláti hégómans.
18. október 2017 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Fögnum fjölbreytileikanum!

Fögnum fjölbreytileikanum!

Verið velkomin að fagna útgáfu Fjölskyldunnar minnar eftir Ástu Rún Valgerðardóttur og Láru Garðarsdóttur í sal Samtakanna 78, Suðurgötu 3, laugardaginn 21. október kl. 14.

Allir velkomnir, bókin á sérstöku útgáfutilboði og léttar veitingar í boði. 

Um Fjölskylduna mína:
Friðjón er fimm ára leikskólastrákur sem á tvær mömmur. Hann veit fátt skemmtilegra en að leika sér við vini sína. Í dag er fjölskyldudagur á leikskólanum og krakkarnir komast að því að fjölskyldur eru jafnólíkar og þær eru margar. Raunar má segja að allar fjölskyldur séu einstakar!
Fjölskyldan mín er skemmtileg bók sem opnar umræðu um ólík fjölskylduform. Fögnum fjölbreytileikanum!

Fjölskyldan mín er fyrsta bók Ástu Rúnar Valgerðardóttur. Lára Garðarsdóttir er höfundur mynda. Við hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest!
18. október 2017 eftir Anna Lea Friðriksdóttir
Bók og beinagrind í sama pakka

Bók og beinagrind í sama pakka

Bókin Settu saman mannslíkamann er gagnvirkur og skemmtilegur leiðarvísir um undur mannslíkamans. Í honum er farið yfir grunnatriði í líffræði líkama okkar á lifandi hátt. Bókinni fylgir 76 cm hátt líkan af beinagrind og líffærum líkamans til að setja saman!


Af hverju slær hjartað svona oft á hverri mínútu?

Hvernig hjálpa vöðvarnir þér að hlaupa og hoppa?

Hvað ver okkur fyrir bakteríum?


Svör við þessum spurningum og fleirum í bókinni og með því að setja saman mannslíkamann.

Settu saman mannslíkamann er alþjóðleg metsölubók sem hefur farið sigurför um heiminn.


Hafsteinn Thorarensen þýddi og Salka gefur út.

6. október 2017 eftir Anna Lea Friðriksdóttir

Esmeralda Santiago á Bókmenntahátíð í Reykjavík

Esmeralda Santiago

Metsöluhöfundurinn Esmeralda Santiago er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík en bækurnar hennar Næstum fullorðin og Stúlkan frá Púertó Ríkó hafa komið út á íslensku hjá Sölku.

Hægt verður að hitta Esmeröldu á eftirfarandi atburðum:

Þriðjudaginn 5. september

11:30 - 13:00

Hamragil, Akureyri

Höfundamót: Lesendur og höfundar

Esmeralda Santiago og Anne-Cathrine Riebnitzsky

17:00 - 19:30

Hamrar, Akureyri

Konur, sjálfsmynd og flutningar

Esmeralda Santiago og Arnar Már Arngrímsson

Föstudaginn 8. september

15:15 - 16:00

Veröld, hús Vigdísar

Uppskrift að lífi - fyrirlestur

Esmeralda Santiago

Laugardaginn 9. september

13:00 - 13:50

Norræna húsið

Sögur, uppruni og sjálfsmyndir - pallborð

Esmeralda Santiago og Guðrún Eva Mínervudóttir. Stjórnandi: Jón Yngvi Jóhannsson

Hér má lesa fyrsta kaflann í bókinni Næstum fullorðin: