Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Hrekkjavökuhátíð Sölku í Norræna húsinu
Komið og njótið hrekkjavöku og barnabóka með okkur í Norræna húsinu 28. október milli kl.14 og 16. Við hvetjum börn og hugaða foreldra til að mæta í búningum. Öll börn fá bókaglaðning frá Sölku. 

Dagskrá:

14:00 til 16:00 Búum til beinagrindur
Beinagrindur og Hrekkjavaka eru tengdar órjúfanlegum böndum og því er tilvalið að nota tækifærið og fræðast smá. Settu saman mannslíkamann fléttar saman ýmsum fróðleik um virkni mannslíkamans við upplýsandi myndir og síðast en ekki síst beinagrindina sem hægt er að setja saman. 

14:00 Skrímsla og drauga ratleikur
Í bókinni Skrímsla- og draugaatlas heimsins má finna ófrýnilegustu og hættulegustu verur veraldarinnar. Við ætlum að pakka niður hugrekkinu og fara í ratleik um Norræna húsið þar sem við hittum ekki eingöngu hefðbundna drauga eða Drakúla sem þyrstir í blóð heldur einnig álfa og skrímsli frá ýmsum löndum.

15:00 Kormákur upplestur
Bækurnar um Kormák verða bráðum tvær en yngstu lesendurnir eru mjög góðir vinir Kormáks. Jóna Valborg Árnadóttir, les upp úr tveimur bókum um Kormák sem er ákveðinn í að gera allt eftir eigin höfði, hvort sem það er að klæða sig sjálfur eða að telja upp í endalaust. 

15:30 Lukka upplestur 
Lukka er uppfinningastelpa sem á hina ótrúlegu hugmyndavél og að sjálfsögðu dregst hún inn í stórhættulega atburðarás ásamt Jónsa bróður sínum. Eva Rún Þorgeirsdóttir, höfundur bókanna, les úr þriðju og síðustu bókinni um Lukku. 

Allir velkomnir og boðið verður upp á léttar veitingar. Við lofum hrikalegri skemmtun.
22. október 2018 eftir Anna Lea Friðriksdóttir