Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Auður Ava og Bergþóra Snæbjörns
Auður Ava Ólafsdóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir heiðra okkur með nærveru sinni á bókakvöldi í bókabúð Sölku miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20. Það er óhætt að segja að í uppsiglingu sé auðgandi aðventukvöld!
Auður Ava gaf nýverið út skáldsöguna Eden sem segir frá málvísindakonu sem er sérfræðingur í fámennistungumálum ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. Hjá íbúum í nálægu þorpi kviknar óvæntur áhugi á málvísindum. Á fjörur söguhetju rekur handrit að ljóðabók fyrrverandi nemanda hennar sem fjallar um ást ungs karlmanns á eldri konu. Auður Ava hefur skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og er textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale. Hún er margverðlaunuð fyrir skáldsögur sínar sem hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Auður Ava hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin, bóksalaverðlaunin og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Ör.
Bergþóra Snæbjörnsdóttir gaf á dögunum út ljóðabókina Allt sem rennur sem hefur fengið glimrandi viðtökur. Hún hefur áður sent frá sér ljóðabækurnar Daloon dagar og Flórída sem og skáldsöguna Svínshöfuð. Þær tvær síðarnefndu hlutu tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Bókakvöldið fer fram miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20 í bókabúð Sölku, Hverfisgötu 89-93. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Höfundar munu kynna og lesa upp úr bókum sínum og í kjölfarið verða umræður þar sem gestum gefst tækifæri til að spyrja spurninga. Bækurnar verða á góðum kjörum, höfundar hiklaust til í að árita og bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn.
29. nóvember 2022 eftir Anna Lea Friðriksdóttir