Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld með Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Það er komið að bókakvöldi Sölku og gestur okkar að þessu sinni er Guðrún Eva Mínervudóttir.
Guðrún Eva gaf nýverið út bókina Útsýni sem hefur fengið frábæra dóma og viðtökur. Áður hefur hún hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin auk þess að hafa margsinnis verið tilnefnd til þeirra og einnig til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Fjöruverðlaunanna, sem hún hefur einnig hlotið.
Bókakvöldið er miðvikudaginn 23. nóvember kl. 20 í bókabúð Sölku, Hverfisgötu 89-93. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Guðrún Eva mun kynna og lesa upp úr bók sinni og í kjölfarið verða umræður þar sem gestum gefst tækifæri til að spyrja spurninga. Bókin verður á góðum kjörum og bókabarinn að sjálfsögðu opinn.
Um Útsýni:
Sigurlilja er ung kona „sem passar ekki inn í normið“, eins og móðir hennar segir, og gædd óvenjulegri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar. Þegar Teresa frænka hennar á Bakkafirði deyr kemur í hennar hlut að fara þangað norður og ganga frá dánarbúinu. Þá kemur í ljós að allir hafa eitthvað að fela – og sýna.
Útsýni er áhrifamikil saga um margvíslegt fólk sem hvert um sig glímir við tilvist sína, skrifuð af þeirri sérstæðu stílgáfu, næmi og mannlegu hlýju sem lesendur þekkja úr fyrri verkum Guðrúnar Evu Mínervudóttur.
21. nóvember 2022 eftir Anna Lea Friðriksdóttir