Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Breytingaskeiðið og kynlíf
Verið hjartanlega velkomin á bókakvöld í bókabúð Sölku þriðjudagskvöldið 17. október kl. 20. Bækurnar sem kynntar verða að þessu sinni eru Breytingaskeiðið og Lífið er kynlíf. Halldóra Skúladóttir mun tala um breytingaskeiðið og Áslaug Kristjánsdóttir um Lífið er kynlíf. Bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn og tími mun gefast til umræðna og spurninga um þessi stóru viðfangsefni!
Öll hjartanlega velkomin!
Um Breytingaskeiðið:
Bók ársins 2023 í Bretlandi!
BREYTINGASKEIÐIÐ ER MEIRA EN BÓK. HÚN ER BYLTING. HÚN ER BJARGVÆTTUR.
Við höfum þjáðst of lengi í hljóði. Það er kominn tími á byltingu. Deilum sögum, lærum og tökum stjórnina á líkömum okkar og lífi.
Við konur munum ALLAR ganga í gegnum þetta. Hvernig getur staðið á því að við vitum svo lítið um eitthvað sem mun hafa mikil áhrif á okkur og þær í kringum okkur? Nú kveðjum við óttann, röngu upplýsingarnar, skömmina og þögnina.
Breytingaskeiðið kannar og útskýrir vísindin, afsannar skaðlegar mýtur sem hafa haldið aftur af okkur of lengi og brýtur þagnarmúrinn sem staðið hefur í kringum breytingaskeiðið, aðdraganda þess og afleiðingar. Í bókinni má lesa persónulegar frásagnir fjölda kvenna því að þótt við upplifum allar breytingaskeiðið á mismunandi hátt erum við allar tengdar. Við erum samfélag.
Þetta er þinn líkami. Hann á skilið að þú aflir þér upplýsinga til að takast á við þetta tímabil lífs þíns. Það er þrátt fyrir allt nóg eftir! Þetta er bara nýtt upphaf og bókin mun hjálpa þér að lifa lífinu til hins ítrasta.
Halldóra Skúladóttir er ötul talskona allra málefna sem tengjast breytingaskeiðinu og hún heldur úti fræðsluvettvanginum Kvennaráð.
Um Lífið er kynlíf:
Lífið er kynlíf- handbók kynfræðings um langtímasambönd
Mikilvægi góðs kynlífs í ástarsamböndum er óumdeilt. Erfiðleikar í kynlífinu geta orðið banabiti sambanda sem að öðru leiti eru farsæl og hamingjurík. Þessir erfiðleikar stafa hins vegar alltof oft af þekkingarleysi. Á undanförnum árum og áratugum hafa rannsóknir og meðferðareynsla kynfræðinga leitt fram aðferðir og ráð sem nýtast öllum við að koma kynlífinu í betra lag.
Því miður er þessi þekking ekki á allra vitorði. Óraunhæfar hugmyndir um kynlíf og kynhegðun fá mikið vægi í samfélaginu á kostnað traustra aðferða við að bæta kynlífið. Áslaug Kristjánsdóttir kynfræðingur hefur áralanga reynslu af meðferð para sem steytt hafa á skeri á þessu mikilvæga sviði lífsins. Hér fer hún yfir aðferðir sem virka til að gera kynlífið ekki bara bærilegt, heldur frábært. Hamlandi viðhorf eru endurskoðuð, pörum kenndar leiðir til að kveikja kynlöngunina og þeim leiðbeint til að auka vellíðan og styrkja sambandið.
Lífið er kynlíf er handbók sem öll pör þurfa að eiga og lesa aftur og aftur.
13. október 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir