Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Ljósbrot og Mennska
Í tilefni af sumarbókaviku og útgáfu tveggja spennandi bóka blásum við til bókakvölds í bókabúð Sölku miðvikudaginn 5. júní kl. 20. Ingileif Friðriksdóttir og Bjarni Snæbjörnsson koma til okkar og segja frá nýútgefnum bókum sínum, Ljósbrot og Mennska. Húsið opnar kl. 19.30, bókabarinn verður opinn, bækurnar að sjálfsögðu á góðum kjörum og öll hjartanlega velkomin!
Um Ljósbrot:
Þegar þú stendur frammi fyrir sannleikanum eða ímyndinni, hvort velurðu?
Kolbrún er farsæll framkvæmdastjóri, hamingjusamlega gift og fjölskyldumyndin gæti auðveldlega fylgt rammanum úti í búð. Þegar hún býður sig fram til forseta fer af stað atburðarás sem hún hefði aldrei getað séð fyrir og kastljósið þvingar hana til að líta inn á við og takast á við stórar spurningar.
Dóra er nýbyrjuð í menntaskóla og er að fóta sig í nýjum heimi. Eins og það sé ekki nógu flókið fyrir þá þróar Dóra með sér tilfinningar til bekkjarsystur sinnar og af stað fer örlagarík atburðarás.
Ljósbrot er áhrifarík saga um ástina og leitina að sjálfinu. Bókin er fyrsta skáldsaga Ingileifar Friðriksdóttur.
Um Mennsku:
Bjarni Snæbjörnsson ólst upp á Vestfjörðum við algeran skort á hinsegin fyrirmyndum. Það eina sem hann heyrði um aðra homma var að þeir væru öfuguggar og kynvillingar. Til að lifa af spilaði hann eftir þeim reglum sem hann taldi gilda en í leiðinni afneitaði hann sjálfum sér með öllum tiltækum ráðum.
Hér segir Bjarni, með aðstoð dagbóka sinna og bréfa - skipta við fjölskyldu og vini, frá leiðinni út úr skápnum. Hann lýsir á hispurslausan hátt ævintýralegri för um heiminn, erfiðum tímum, ástum og kynlífi, litlum og stórum sigrum í lífi og leiklist � ásamt áralangri sjálfsvinnu til að ná sátt við sína margbrotnu og litríku mennsku.
Mennska er aðgengileg og hrífandi lesning sem á erindi við alla sem hafa glímt við skömm og reynt að skila henni, finnst erfitt að taka pláss í samfélaginu eða hafa fórnað hluta af sjálfum sér af ótta við viðbrögð annarra.
27. maí 2024 eftir Anna Lea Friðriksdóttir