
Forseti Íslands fær Rúnar góða að gjöf í tilefni dags Barnasáttmálans
Í dag, 20. nóvember er alþjóðlegur dagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í tilefni dagsins færði Hanna Borg Jónsdóttir forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, forsetafrú barnabókina Rúnar góða að gjöf.
Rúnar góði er skrifuð með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Hún kynnir réttindi barna fyrir ungum lesendum, réttindi sem öll börn í heiminum eiga að njóta. Bókin er þannig mikilvægt veganesti út í lífið. Börn eiga að þekkja réttindi sín og fullorðnum ber einnig að þekkja þau. Bókinni er ætlað að vera hvatning fyrir foreldra og aðra forráðamenn til að lesa með börnunum sínum og velta fyrir sér mismunandi aðstæðum og ólíku lífi barna.
Sagan segir frá viðburðarríkum degi í lífi Rúnars og hverjum kafla fylgja ýmsar hugleiðingar sem tengjast sögunni og sáttmálanum. Bókin gefur tækifæri á fjölbreyttum vangaveltum og hægt er að kafa dýpra í málefnin, allt eftir þroska barna.