Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Lóa
Lóa H. Hjálmtýsdóttir hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir myndlýsingu í bókinni Héragerði. „Myndhöfundareinkenni Lóu Hlínar eru mjög greinileg í bókinni Héragerði, en um leið er líka auðséð að bókin er ætluð eldri lesendum en hefðbundnar myndabækur. Ekki bara vegna þess að textinn er lengri og þyngri, ef hægt er að nota það orð um svo sprellfjörugan texta, heldur eru sjónrænir þættir eins og litur á síðum og letri markvisst notaðir til að styrkja upplifunina og auðga lesturinn. Mikilvægt er að lesendur fái að upplifa að bók getur verið bæði fallegur og spennandi hlutur í sjálfu sér, jafnvel boðið upp á óvænta upplifun eins og litla bók í leynivasa! Það er skemmtilegt, og ákaflega mikilvægt, að nú skuli sífellt fjölga myndlýstum bókum fyrir lesendur sem komnir eru yfir hefðbundinn myndabókaaldur og gott að sjá myndræna útfærslu sem höfðar til þeirra notaða af svo mikilli leikni, og svo mikilli gleði,“ segir í umsögn dómnefndar.
21. apríl 2023 eftir Dögg Hjaltalín