Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Kraftbjór er bók vikunnar

Bók vikunnar að þessu sinni er Kraftbjór. Frábært verð og enginn sendingarkostnaður!

https://www.salka.is/products/kraftbjor

 

Mannkynið hefur þekkt til upplífgandi eiginleika gerjaðs korns að minnsta kosti frá árinu 9000 fyrir Krists burð og í dag er það undirstaða vinsælasta áfenga drykkjarins. Um þessar mundir tala margir um „endurreisn“ og „byltingu“ bjórsins, sem kann að virðast undarlegt þar sem bjórinn hefur alltaf verið mikils metinn. Málið er þó að það sem hefur breyst er hvernig við hugsum um bjór, fjölbreytileika hans, bragð, styrk, möguleika, jafnvel hlutverk hans í samfélaginu. Rauði þráðurinn í þessari nýju nálgun er það sem dagsdaglega er kallað kraftbjór.

Hvað er kraftbjór?

Sumir vilja meina að kraftbrugghúsin snúist öll um takmarkaða framleiðslu. Þetta kann að eiga rétt á sér í samanburði við vörumerki á borð við Budweiser en heldur ekki vatni þegar horft er til þess að árið 2014 framleiddi Lagunitas 600.000 ámur af bjór í brugghúsi sínu í Kaliforníu. Aðrir telja að aðalsmerki kraftbrugghússins sé hinn sjálfstætt starfandi bruggari. Þetta er að mestu leyti rétt og unnendur kraftbjórsins þreytast seint á að lýsa því yfir hversu mikið betur bjórinn bragðast sem stórfyrirtækin koma ekki nálægt. Enn aðrir halda því fram að kraftbjórinn snúist um afgerandi bragð, háa áfengisprósentu og hráefni sem engum ætti að detta í hug að blanda í bjór; hráefni á borð við villtar kryddplöntur, greipávexti og tonkabaunir. Þau rök halda þó ekki vatni þar sem margar gerðir kraftbjórs eru nútímaútfærslur á aldagömlum bruggstíl. Að þessu sögðu er kannski reynandi að sjóða saman nýja skilgreiningu – kraftbjór snýst um gæði umfram magn, um hugsjón frekar en peninga, um innihald frekar en umbúðir. Ef þér hugnast þetta þá er kraftbjórinn fyrir þig.

Í Kraftbjór má finna umfjöllun og uppskriftir frá fleiri en 60 áhugaverðum brugghúsum auk veglegs inngangskafla um undirstöðuatriði bruggunar. Í bókinni ausa bestu handverksbruggarar heims úr viskubrunni sínum, opna bækur sínar í fyrsta sinn og deila uppskriftum að bjórum sínum með öllum bjóráhugamönnum, bruggurum og öðrum aðdáendum mjaðarins gyllta.

Heimsins bestu brugghús

Allar uppskriftirnar í bókinni Kraftbjór koma frá spennandi brugghúsum sem þekkt eru fyrir vera óhrædd við að fara ótroðnar slóðir. Sæktu þér innblástur í þær því það er mun skemmtilegra að reyna við Cream Ale frá Mikkeller eða Ginormous Imperial IPA frá Gigantic en gamla hefðbundna uppskrift. Byrjaðu á einhverri einfaldri og renndu þér svo í flóknari uppskriftir þegar þér finnst þú vera að ná tökum á tækninni og fá tilfinningu fyrir búnaðinum. Þegar sjálfstraustið er komið geturðu svo notað uppskriftirnar sem stökkbretti yfir í þína eigin sköpun – meira/minna/aðra gerð af humlum á mismunandi stigum, ristað malt eða rúgur eða hafrar, viðbótarhráefni á borð við ávexti, kryddjurtir, krydd, te, súkkulaði, vanillu, kaffi … þú gefur bara ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Bókin leiðir lesandann víða um heim, enda má finna brugghús allt frá Ástralíu til Íslands í henni. Meðal annars eru uppskriftir frá Brewdog, Omnipollo, Mikkeller, Beavertown, Evil Twin og mörgum fleirum. Íslensku brugghúsin á síðum bókarinnar eru Austri, Borg,  Brothers Brewery, Bryggjan, Gæðingur, Jón ríki, Kex, Segull 67, Steðji, Ölverk og Ölvisholt.

26. mars 2018 eftir Anna Lea Friðriksdóttir