Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Snuðra og Tuðra gera innrás á Mokka

Á fullveldisdaginn, fimmtudaginn 1. desember, opnar Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir sýningu tileinkaða systrunum Snuðru og Tuðru á Mokka. Lóa Hlín hefur glætt systurnar úr sögum Iðunnar Steinsdóttur lífi til fjölda ára og nú nýverið komu út tvær nýjar bækur um systurnar síkátu en svolítið óþekku.

Í tilefni af opnuninni eru allir eru hjartanlega velkomnir að þiggja kakó, kaffi og með því á fimmtudaginn, 1. desember, kl. 17. Sýningin mun svo standa til og með 14. desember og því kjörið að kíkja á Mokka á aðventunni - enda verður það ekki mikið huggulegra.

Lóa Hlín hefur nemið myndlist við Listaháskóla Íslands, myndskreytingar við Parsons í New York og nú síðast ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út fjölda myndasagna, á borð við Alhæft um þjóðir og Lóaboratoríum, og myndskreytt margar barnabækur - þar á meðal bækurnar um Snuðru og Tuðru. Hún hefur birt myndasögur í ýmsum ritum m.a. Grapevine, (gisp!), Mannlífi, ÓkeiPiss og Very Nice Comics. Hún teiknaði og talsetti hluta teiknimyndaseríunnar Hulli. Fyrir utan að vera myndlistarkona, teiknari, myndskreytir og myndasöguhöfundur er Lóa þekkt fyrir að vera söngkona hljómsveitarinnar FM Belfast.

1. desember 2016 eftir Dögg Hjaltalín