Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Nýtt hlaðvarp um Fjallvegahlaup

Nýtt hlaðvarp um Fjallvegahlaup

Í Sölkuvarpinu fjallar Helga Arnardóttir um fjallvegahlaup frá öllum hliðum. Hún fer yfir hvað ber að hafa í huga fyrir byrjendur og einnig fyrir lengra komna, hvað þurfi að gera áður en lagt er að af stað og hvaða leiðir henta best hverjum og einum.

Viðmælendur Helgu eru Stefán Gíslason, þaulreyndur hlaupari og höfundur bókarinnar Fjallvegahlaup og Dalla Ólafsdóttir, sem byrjaði fyrir nokkru að hlaupa úti í náttúrunni og kolféll fyrir þessari útivist.

Umsjón og handrit: Helga Arnardóttir

Nánar um Fjallvegahlaup eftir Stefán Gíslason

Fjallvegahlaup komin út

Fjallvegahlaup komin út

Umhverfisstjórnunarfræðingurinn og hlauparinn Stefán Gíslason gaf sjálfum sér óvenjulega afmælisgjöf fyrir tíu árum síðan, þegar hann var fimmtugur. Hann hét sjálfum sér að hlaupa fimmtíu fjallvegi áður en hann fagnaði sextugsafmæli sínu.

Það fyrsta sem Stefán, sem er reyndur hlaupari, þurfti að gera var að ákveða hvernig skyldi skilgreina fjallvegi. Niðurstaða hans var að hver leið þyrfti að vera 9 kílómetrar eða lengri, ná að minnsta kosti 160 m hæð yfir sjó og tengja saman tvö byggðarlög eða áhugaverða staði. Leiðirnar geta verið fornar göngu- eða reiðleiðir eða fáfarnir bílvegir.

Tilgangur gjafarinnar var margþættur; að halda sér í formi á sextugsaldrinum, að kynnast landinu sínu betur og að vekja áhuga annarra á útivist og hreyfingu. Tæpum tíu árum síðar var hinn tæplega sextugi Stefán staddur á Arnarvatnsheiði að hlaupa fimmtugasta og jafnframt lengsta fjallvegahlaupið ásamt fríðu föruneyti. Það má því segja að gjöfin hafi sannarlega uppfyllt alla þrjá liði tilgangs hennar en Stefán býr yfir miklum og skemmtilegum fróðleik um nánast hvern krók og kima landsins.

Hér má kaupa bókina. 

24. mars 2017 eftir Dögg Hjaltalín
Fjallvegahlaupið útgáfuhóf

Fjallvegahlaupið útgáfuhóf

Við blásum til útgáfuhófs laugardaginn 18. mars í Gym&Tonic sal Kex Hostel. Tilefnið er útgáfa Fjallvegahlaups eftir Stefán Gíslason sem svo skemmtilega vill til að á sextugsafmæli þennan sama dag. Fjallvegahlaupaverkefnið fékk Stefán í fimmtugsafmælisgjöf frá sjálfum sér fyrir tíu árum síðan. Það fól í sér að hlaupa fimmtíu fjallvegi áður en sextugsaldrinum lyki - stundum einn en oftast í góðra vina hópi. Eins og Stefáni er von og vísa stóðust allar tímaáætlanir og nú kemur bók með lifandi leiðarlýsingum 50 fjallvega fyrir sjónir lesenda. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir eru hjartanlega velkomnir að fagna með okkur!
17. mars 2017 eftir Dögg Hjaltalín