Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Útgáfufjör á 17. júní!
Hæhó og jibbíjei! Hátíðarhöldin á 17. júní hefjast í bókabúð Sölku því þar fögnum við útgáfu bókarinnar Úlfur og Ylfa - Ævintýradagurinn eftir Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur milli kl. 12-14. Sleikjóar, blöðrur og annað skemmtilegt sem fylgir þjóðhátíðardeginum á boðstólum fyrir hressa krakka og að sjálfsögðu heitt á könnunni fyrir eldri kynslóðina. Það er tilvalið að líta við fyrst á Hverfisgötunni áður en haldið er í skrúðgöngu og tónleika! Öll hjartanlega velkomin og bókin að sjálfsögðu á góðu tilboði. Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!
Um bókina:
Dagurinn í dag er enginn venjulegur dagur. Í dag ætlar Úlfur að fara í ævintýraleiðangur með
Ylfu, bestu vinkonu sinni. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera þegar ímyndunaraflið er með í för! Þá getur íslenskur mói breyst í sléttur Afríku og lítil tjörn orðið að Atlantshafinu. Úlfur getur ekki beðið eftir að segja mömmum sínum frá ævintýrum vinanna í lok dags.
Höfundar bókarinnar eru Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir sem halda úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikinn. Bókin er sú fyrsta um Úlf og Ylfu sem lesendur eiga eftir að kynnast nánar í framtíðinni. Bókaflokknum er ætlað að fagna fjölbreytileikanum með því að sýna hann í allri sinni dýrð í skemmtilegum sögum fyrir hressa krakka.
13. júní 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir