Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Bergþóra og Bragi Páll
Verið velkomin á bókakvöld miðvikudaginn 22. nóvember kl. 20. Hjónin Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson koma til okkar og kynna nýútkomnar bækur sínar, Duft og Kjöt. Húsið og bókabarinn opna kl. 19.30. Öll hjartanlega velkomin!
Kjöt eftir Braga Pál:
Sturlaugur var ein skærasta stjarna íslenska myndlistar­heimsins á yngri árum og stefndi á heimsfrægð þegar hann hvarf af hinu opinbera sviði. Fimmtán árum síðar snýr hann aftur með verk sem setur alla heimsbyggðina á hliðina. – Bragi Páll hristir hér hressilega upp í lesendum eins og í fyrri bókum sínum með beittum húmor og áleitnum spurningum.
KJÖT er ágeng saga sem fjallar um óseðjandi holrúm og fórnir sem listamenn eru tilbúnir að færa til að sinna köllun sinni.
Duft eftir Bergþóru:
Verónika er einkadóttir vellauðugra líkamsræktarfrömuða á Íslandi sem eru helteknir af yfirborðinu. En það sem marir undir seytlar samt óhjákvæmilega í gegn. Duft spinnur margslunginn vef um líf Veróniku og fjallar um líkindi truflaðrar fjölskyldu við sértrúarsöfnuð, og hvernig venjulegt fólk kemur sér í óvenjulegar aðstæður.
21. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir