Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Stríðsbjarmar og Land næturinnar
Verið velkomin á bókakvöld Sölku á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember kl. 20. Valur Gunnarsson og Vilborg Davíðsdóttir koma til okkar og segja frá nýútkomnum bókum sínum, Stríðsbjarmar og Land næturinnar, en þær eiga það sameiginlegt að gerast í austurvegi. Bókabarinn verður opinn, bækurnar á góðu tilboði og höfundar árita að kynningu lokinni. Öll hjartanlega velkomin!
Stríðsbjarmar er saga þjóðar í stríði en jafnframt rúmlega þúsund ára saga Úkraínu, allt frá víkingum og kósökkum til keisaravelda og Sovétríkja og loks sjálfstæðis en þó enn meiri átaka. Úkraínustríðið er einhver örlagaríkasti viðburður okkar tíma og hér eru sem flestar hliðar málsins fangaðar á aðgengilegan hátt.
„Það er auðvelt að sleppa stríðum lausum en erfiðara að enda þau. Og í raun lýkur þeim aldrei, ekki á meðan síðustu eftirlifendurnir draga enn andann. Stríð breytir öllu, mótar allt. Það lifir enn í hjörtum fólks löngu eftir að sprengjurnar hætta að falla. Og erfist stundum til næstu kynslóða.“
Um hvað snýst stríðið í Úkraínu? Og hvernig er fyrir fólk að lifa við stríð? Sagnfræðingurinn Valur Gunnarsson stundaði nám í Úkraínu og hélt aftur þangað nokkrum mánuðum eftir að stríðið hófst til að leita svara við þessum spurningum og fleirum. Hann ferðaðist um landið þvert og endilangt, frá Lviv til vestri til Kharkiv í austri, frá Odesa í suðri til Kyiv í norðri. Loks hélt hann til vígstöðvanna í Donbas rétt eftir að gagnsóknin hófst um haustið og var stundum hætt kominn en komst heilu og höldnu heim. En stríðið hélt áfram og Valur fór aftur til Úkraínu sumarið eftir þar sem stríðsbjarmarnir loguðu enn. Stríð var orðið eðlilegt ástand og þó svo óeðlilegt um leið, venjulegt líf hélt áfram við hlið hins óhugsandi. Mitt í öllum hörmungunum mátti sjá þjóð verða til.
Stríðsbjarmar er saga þjóðar í stríði en jafnframt rúmlega þúsund ára saga Úkraínu, allt frá víkingum og kósökkum til keisaravelda og Sovétríkja og loks sjálfstæðis en þó enn meiri átaka. Úkraínustríðið er einhver örlagaríkasti viðburður okkar tíma og hér eru sem flestar hliðar málsins fangaðar á aðgengilegan hátt.
Land næturinnar er áhrifarík og spennandi skáldsaga þar sem Vilborg Davíðsdóttir leiðir lesendur í sannkallaða ævintýraför á slóðir víkinga í Austur-Evrópu fyrir rúmum þúsund árum.
Þorgerður Þorsteinsdóttir hefur lifað mikinn harm heima á Íslandi og heldur til Noregs þar sem örlögin senda hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.
Sagan hefst þar sem þar sem þræðinum sleppti í fyrri bókinni um Þorgerði, Undir Yggdrasil, en fyrir hana var Vilborg tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021. Sögulegar skáldsögur hennar hafa notið mikilla vinsælda enda varpa þær nýju ljósi á líf og aðstæður kvenna í fortíðinni.
11. nóvember 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir