Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld - Jón Kalman og Sigríður Hagalín
BÓKAKVÖLD SÖLKU - ALLA MIÐVIKUDAGA TIL JÓLA!
Guli kafbáturinn eftir Jón Kalman segir frá miðaldra rithöfundi sem er staddur staddur í almenningsgarði í London og á brýnt erindi við Paul McCartney sem situr þar undir tré. Fortíðin sækir á hann í líki gamals Trabants þar sem sitja m.a. faðir hans og Guð með vodkaflösku, mamma hans og heill kirkjugarður af dánu fólki. Skáldsaga um listina, dauðann og þó miklu frekar um lífið, ímyndunaraflið og Bítlana.
Hamingja þessa heims eftir Sigríði Hagalín segir frá sagnfræðiprófessor í útlegð sem ásakaður er um ósæmilega framkomu. Hann finnur gamalt handrit sem varpar nýju ljósi á löngu liðna sögu. Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram; með Ólöfu ríku í broddi fylkingar.
Bókakvöldið fer fram miðvikudaginn 7. desember kl. 20 í bókabúð Sölku, Hverfisgötu 89-93. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Höfundar munu kynna og lesa upp úr bókum sínum og í kjölfarið verða umræður þar sem gestum gefst tækifæri til að spyrja spurninga. Bækurnar verða á góðum kjörum, höfundar hiklaust til í að árita og bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn. 
7. desember 2022 eftir Dögg Hjaltalín