Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókin um Jómfrúna tilnefnd til verðlauna

Íslend­ing­ar hafa löng­um þekkt töfra Jóm­frú­ar­inn­ar í Lækj­ar­götu. Fáir veit­ingastaðir eiga jafn­marga fasta­gesti og á aðvent­unni er nán­ast ómögu­legt að fá þar borð því gest­ir tryggja sér sitt pláss með margra mánaða fyr­ir­vara og sum­ir meira að segja með margra ára fyr­ir­vara og eiga sitt borð ár eft­ir ár. Jafn­vel hafa heyrst sög­ur af því að borðap­ant­an­irn­ar gangi í erfðir.

Á 25 ára af­mæli Jóm­frú­ar­inn­ar gaf bóka­út­gáf­an Salka út mat­reiðslu­bók veit­inga­húss­ins en hún fang­ar and­rúms­loftið sem í Lækj­ar­göt­unni rík­ir og í henni má finna upp­skrift­ir að fjöl­mörg­um rétt­um sem prýtt hafa mat­seðil­inn í gegn­um tíðina, sögu veit­ingastaðar­ins og vitn­is­b­urð fastak­únna sem all­ir kalla Jóm­frúna sína. Á boðstól­um á Jóm­frúnni er, og hef­ur alltaf verið, danskt smur­brauð í bland við aðra sí­gilda danska rétti að ógleymd­um guðaveig­um til að væta kverk­arn­ar. Hefðin er í há­veg­um höfð á Jóm­frúnni og stefna henn­ar er að halda kúrs­in­um stöðugum á langri og far­sælli leið. Hún er fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki og höf­und­ur bók­ar­inn­ar er Jakob E. Jak­obs­son, eig­andi Jóm­frú­ar­inn­ar og son­ur stofn­and­ans Jak­obs Jak­obs­son­ar.

Ný­verið bár­ust þær gleðifregn­ir að bók­in um Jóm­frúna er til­nefnd til alþjóðlegu mat­reiðslu­bóka­verðlaun­anna Gourmand. Mat­reiðslu­bæk­ur frá fleiri en 200 lönd­um taka þátt í Gourmand ár hvert en verðlaun­in hafa verið veitt frá ár­inu 1995. Stofn­andi Gourmand er hinn franski Edou­ard Co­intreau sem kem­ur af mikl­um sæl­kera­ætt­um enda vís­ar eft­ir­nafn hans til föður­fjöl­skyld­unn­ar sem stend­ur að baki Co­intreau-lí­kjörs­ins og móður­fjöl­skylda hans mynd­ar veldið á bakvið koní­akið Remy Mart­in. 

Jóm­frú­in mun etja kappi við bæk­ur frá Kúbu, Frakklandi og Banda­ríkj­un­um í sín­um flokki en til­kynnt er um sig­ur­veg­ara á verðlauna­hátíð í Svíþjóð í maí á næsta ári. Og nú er bara spurn­ing hvort það sann­ist sem svo marg­ir þegar telja sig vita - að Jóm­frú­in sé best í heimi.

19. desember 2022 eftir Anna Lea Friðriksdóttir