Bókin um Jómfrúna tilnefnd til verðlauna
Íslendingar hafa löngum þekkt töfra Jómfrúarinnar í Lækjargötu. Fáir veitingastaðir eiga jafnmarga fastagesti og á aðventunni er nánast ómögulegt að fá þar borð því gestir tryggja sér sitt pláss með margra mánaða fyrirvara og sumir meira að segja með margra ára fyrirvara og eiga sitt borð ár eftir ár. Jafnvel hafa heyrst sögur af því að borðapantanirnar gangi í erfðir.
Á 25 ára afmæli Jómfrúarinnar gaf bókaútgáfan Salka út matreiðslubók veitingahússins en hún fangar andrúmsloftið sem í Lækjargötunni ríkir og í henni má finna uppskriftir að fjölmörgum réttum sem prýtt hafa matseðilinn í gegnum tíðina, sögu veitingastaðarins og vitnisburð fastakúnna sem allir kalla Jómfrúna sína. Á boðstólum á Jómfrúnni er, og hefur alltaf verið, danskt smurbrauð í bland við aðra sígilda danska rétti að ógleymdum guðaveigum til að væta kverkarnar. Hefðin er í hávegum höfð á Jómfrúnni og stefna hennar er að halda kúrsinum stöðugum á langri og farsælli leið. Hún er fjölskyldufyrirtæki og höfundur bókarinnar er Jakob E. Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar og sonur stofnandans Jakobs Jakobssonar.
Nýverið bárust þær gleðifregnir að bókin um Jómfrúna er tilnefnd til alþjóðlegu matreiðslubókaverðlaunanna Gourmand. Matreiðslubækur frá fleiri en 200 löndum taka þátt í Gourmand ár hvert en verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1995. Stofnandi Gourmand er hinn franski Edouard Cointreau sem kemur af miklum sælkeraættum enda vísar eftirnafn hans til föðurfjölskyldunnar sem stendur að baki Cointreau-líkjörsins og móðurfjölskylda hans myndar veldið á bakvið koníakið Remy Martin.
Jómfrúin mun etja kappi við bækur frá Kúbu, Frakklandi og Bandaríkjunum í sínum flokki en tilkynnt er um sigurvegara á verðlaunahátíð í Svíþjóð í maí á næsta ári. Og nú er bara spurning hvort það sannist sem svo margir þegar telja sig vita - að Jómfrúin sé best í heimi.