Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Fyrsta bókakvöldið á nýju ári
Það er komið að fyrsta bókakvöldi Sölku á nýju ári! Bók fornleifafræðingsins Þorvaldar Friðrikssonar, Keltar, sló rækilega í gegn þegar hún kom út í vetur og seldist alls staðar upp. Nú er bókin væntanleg á nýjan leik og við blásum til bókakvölds þar sem Þorvaldur mun segja frá rannsóknum sínum og efni bókarinnar. Kynningin fer fram miðvikudagskvöldið 1. febrúar kl. 20 í bókabúð Sölku við Hverfisgötu og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Bókabarinn verður opinn og tækifæri mun gefast til umræðna.
Um bókina:
Í Keltum er boðið upp á nýja sýn á Íslandssöguna, innsýn í það sem hefur að miklu leyti verið hulið; hina miklu hlutdeild Kelta í íslenskri menningarsögu. Nýlega kom í ljós með greiningu erfðaefnis að meira en helmingur íslenskra landnámskvenna voru Keltar. Hér er fjallað um önnur stórtíðindi, það keltneska í íslenskri tungu og í örnefnum á Íslandi.
Fjöll, firðir, dalir og víkur, hreppar og sýslur skarta keltneskum nöfnum. Nöfn húsdýra, fugla, fiska og blóma á Íslandi sem eru ekki norræn heldur keltnesk. Framburður íslenskrar tungu er ekki norrænn heldur keltneskur.
Þá er fjallað um keltneska kristni og fyrsta hellamálverkið sem fannst á Íslandi; helgimynd í papahelli sem er eldri en norrænt landnám.
Þessi bók sætir því miklum tíðindum.
Hlökkum til að sjá ykkur!
19. janúar 2023 eftir Anna Lea Friðriksdóttir