Dýrmætar minningar um dýrmætar manneskjur
Klettaborgin er komin út. Sólveig Pálsdóttir var ung send í sveit austur í Skaftafellsýslu og dvaldi í mörg ár sumarlangt á bænum Hraunkoti í Lóni. Segja má að tveir heimar hafi búið í Sólveigu alla tíð. Á veturna bjó hún í Vesturbænum en dvaldi einnig löngum á Bessastöðum þar sem afi hennar var forseti Íslands. Klettaborgin byggir á minningum Sólveigar frá æsku og fram undir tvítugt og persónugalleríið er fjölbreytt. Hún skrifar um fólk og atburði, sem hafa haft áhrif á líf hennar, og lýsir horfnum heimi og annars konar lífsgildum en við þekkjum í dag.
Sólveig hefur hingað til skrifað glæpasögur við góðan orðstír. Hún hefur sent frá sér bækurnar Leikarinn, Hinir réttlátu, Flekklaus, Refurinn og Fjötrar en fyrir þá síðastnefndu hlaut hún Blóðdropann, verðlaun fyrir bestu glæpasögu ársins 2019. Nú leitar hún á ný mið og rifjar með hrífandi og kærleiksríkum hætti upp atburði frá uppvaxtarárum sínum. Klettaborgin geymir fallegar sögur og dýrmætar minningar um dýrmætar manneskjur.
Nýlega kom Refurinn út á ensku í Bretlandi og hefur bókin fengið frábæra dóma þar í landi. Fjötrar koma út í Bretlandi árið 2021.
Breskir framleiðendur vinna nú að gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggir á Refnum sem Sólveig sendi frá sér árið 2017. Stefnt er að því að taka þættina upp hér á landi en sögusvið bókarinnar er austurland, nánar tiltekið Höfn í Hornafirði og Lónið. Tina Gharavi hjá Bridge & Tunnel er meðal framleiðanda en hún hefur hefur verið tilnefnd til BAFTA-verðlauna sem og til verðlauna á Sundance-kvikmyndahátíðinni. Nicky Bentham hjá Neon Films kemur einnig að verkefninu en hún hefur unnið að verkefnum sem hafa fengið fjölda verðlauna. Þar má til dæmis nefna kvikmyndina Moon með Sam Rockwell og Kevin Spacey í aðalhlutverkum sem fékk BAFTA-verðlaun og verðlaun sem besta kvikmyndin á British Independant Film Awards og heimildamyndina Taking Liberties sem tilnefnd var til BAFTA-verðlaunanna.