Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Góð samskipti eru lykillinn að velgengni

Samskipti eftir Pálmar Ragnarsson er komin út. 

Góð samskipti eru lykillinn að velgengni og þau opna fjölmargar dyr. Þau eru það mikilvægasta sem við getum tileinkað okkur og hafa áhrif á alla þætti lífs okkar. Með færni í samskiptum gerum við lífið einfaldara og skemmtilegra, fækkum árekstrum og auðveldum okkur að kynnast fólki og ná markmiðum okkar. 

Samskipti er leiðarvísir að jákvæðum samskiptum á mörgum sviðum, hvort sem er í einkalífinu, á vinnustað eða í félagslífinu. Farið er ítarlega yfir alls kyns samskipti milli einstaklinga, samskipti í hópum, hagnýtar aðferðir í samskiptum við börn, samskipti við ókunnuga og samskipti á netinu. Í bókinni má finna ótal góð ráð, æfingar, hugleiðingar og dæmisögur til að auka færni okkar á sviði samskipta. Samskipti á erindi við alla því með góðum aðferðum í samskiptum getum við gert okkar eigið líf betra á sama tíma og við bætum líf fólksins í kringum okkur.


Í bókinni koma einnig fram niðurstöður úr stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á samskiptum Íslendinga. Rannsóknin var framkvæmd sérstaklega fyrir bókina og tóku yfir 1300 manns þátt í henni.

Hér er hægt að glugga í bókina.


Um höfundinn


Pálmar Ragnarsson er þjóðþekktur fyrirlesari en hann hefur haldið yfir 500 fyrirlestra um samskipti um allt land. Pálmar er með BS gráðu í sálfræði og MS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á samskipti á vinnustöðum. Fyrirlestra sína hefur Pálmar haldið í flestum af stærstu fyrirtækjum landsins, fjölda ráðuneyta og stofnana, fyrir starfsfólk og nemendur skóla á öllum stigum, fjölda íþróttaliða og fleiri.

Hann hefur þjálfað börn og unglinga í körfuknattleik í um þrettán ár og vakið mikla athygli fyrir skemmtilegar og nýstárlegar aðferðir sínar í samskiptum við iðkendur þar sem aðaláherslan er sú að öllum börnum líði vel á æfingum og upplifi að þau séu mikilvægur hluti af hópnum. Einnig hefur hann gert mörg skemmtileg myndbönd frá æfingum sem vakið hafa athygli bæði á myndbandaveitu Youtube og Facebook.

Pálmar hefur haldið fyrirlestra og útbúið myndbönd um jafnrétti í íþróttum sem vakið hafa mikla athygli og jafnvel út fyrir landsteinana. Þannig var myndband hans, Skjóttu eins og stelpa, sýnt með enskum texta á ráðstefnu UN Women um kynjajafnrétti í höfuðstöðum Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2017 og í kjölfarið dreift á samfélagsmiðlum UN Women. 

Hann hefur verið virkur þátttakandi í verkefni ÍSÍ og UMFÍ, Sýnum karakter, sem snýr að þjálfun andlegu hliðarinnar í íþróttum. Þar hefur hann haldið fyrirlestra um virka þjálfun á áhuga og sjálfstrausti auk fyrirlesturs um önnur markmið sem íþróttabörn geta sett sér en þau að verða afreksfólk eða atvinnumenn í sinni íþrótt. Einnig hefur hann verið ráðstefnustjóri á ráðstefnu Sýnum karakter og leikið í auglýsingum verkefnisins.

Pálmar var ráðstefnustjóri á fyrsta formlega barnaþinginu í sögu Íslands sem haldið var í Hörpu árið 2019. Þar komu saman tæplega 200 börn og ræddu ýmis þjóðfélagsmál sem við koma börnum og kynntu niðurstöður sínar í kjölfarið fyrir ráðherrum, þingmönnum og öðru áhrifafólki í íslensku þjóðfélagi. Niðurstöður þingsins verða notaðar til stefnumótunar á Alþingi í kjölfarið.



28. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir