Framúrskarandi Íslandsdætur
Íslandsdætur eftir Nínu Björk Jónsdóttur er komin út! Í henni er sögð saga rúmlega 40 framúrskarandi kvenna sem spanna tímann allt frá upphafi byggðar á Íslandi til dagsins í dag. Bókin segir meðal annars frá Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu nafnkenndu landnámskonunni, Fjalla-Höllu sem dvaldi áratugum saman á hálendinu á flótta undan réttvísinni, Vilhelmínu Lever fyrstu íslensku konunni sem kaus í kosningum (heilum 19 árum áður en konur fengu þann rétt) og Ástu málara sem einsetti sér að finna starf þar sem hún fengi borgað sömu laun og karlmaður og varð fyrst Íslendinga til að ljúka meistaraprófi í iðngrein. Í bókinni má einnig lesa um fyrstu konurnar sem gerðu ritstörf, myndlist, tónsmíðar, leiklist og höggmyndalist að starfsvettvangi sínum, sem og frá fyrsta kvenprófessornum, fyrstu konunni sem lauk einkaflugmannsprófi, fyrstu konunum sem tóku sæti í borgarstjórn, Alþingi, ríkisstjórn og fyrstu konunni til að verða forseti Íslands. Hér er einnig sögð saga kvenna sem hafa skarað fram úr í íþróttum og listum, hafa ekki látið erfiðar aðstæður stöðva sig eða hafa komist til æðstu metorða á sínu sviði. Yngstu konurnar í bókinni eru rétt að byrja að láta til sín taka.
Nína Björk Jónsdóttir er með MA próf í alþjóðastjórnmálum, próf í hagnýtri fjölmiðlun og BA próf í frönsku og stjórnmálafræði. Hún er sendifulltrúi í utanríkisþjónustunni og gegnir í dag starfi forstöðumanns viðskiptaþjónustu, en hefur m.a. starfað í París og Genf. Þá starfaði hún áður sem blaða- og fréttamaður í nokkur ár og var friðargæsluliði á Balkanskaganum.
Hugmyndina að bókinni fékk Nína þegar hún var búsett erlendis ásamt börnum sínum og uppgötvaði að það vantaði bók um merkilegar konur í Íslandssögunni. Íslandsdætur er fyrsta bók Nínu Bjarkar en hún hefur einnig skrifað leikrit sem sett hafa verið upp af áhugaleikfélögum.
Myndir bókarinnar teiknar Auður Ýr Elísabetardóttir á sinn einstaka hátt.
Auður Ýr er myndhöfundur, húðflúrari og sjálfstætt starfandi listakona. Hún lærði myndskreytingar í Academy of Art í San Francisco.