Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Fjallvegahlaup yfir Hellisheiði

Fjallvegahlaupasumarið 2025 hefst með látum laugardaginn 24. maí nk. kl. 10:00 með hlaupi yfir Hellisheiði, eftir gamla veginum frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis. Þar gefst meðal annars tækifæri til að skoða gamla veginn niður Kambana, en umfram allt verður þetta góður dagur í góðum félagsskap og (næstum örugglega) í góðu veðri.

Hlaupið yfir Hellisheiðina verður 82. fjallvegahlaupið frá því að fjallvegahlaupaverkefni Stefáns Gíslasonar hófst sumarið 2007. Stefnt er að því að fjallvegirnir verði orðnir 100 talsins fyrir árslok 2026, enda er ný fjallvegahlaupabók frá bókaútgáfunni Sölku væntanleg í allar helstu bókabúðir í mars 2027 (á sjötugsafmæli Stefáns). Þar verða frásagnir og myndir frá síðustu 50 hlaupum (hlaupum nr. 51-100).

Að sjálfsögðu er öllum boðið að taka þátt í Hellisheiðarhlaupinu. Vegalengdin er ekki nema rétt um 14 km og hraðinn verður bara sá sem flestum hentar. Fólk má t.d. alveg ganga þetta rösklega. Fjallvegahlaupin eru jú skemmtihlaup en ekki keppni. Og staðsetning hlaupsins gerir það að verkum að stór hluti þjóðarinnar ætti að eiga tiltölulega auðvelt með að koma sér á staðinn.

Þátttakan í Hellisheiðarhlaupinu kostar ekki neitt en þátttakendur fara þetta á eigin ábyrgð. Hlaupið er skipulagt í samstarfi við bókaútgáfuna Sölku og þess vegna er fólk beðið um að skrá sig til leiks á Facebook. Hveragerði býður hlaupurum frítt í sund og því endar hlaupið hjá sundlauginni Laugaskarði. Matkráin býður svo hlaupurum 20% afslátt af mat og drykk!

Reimum á okkur hlaupaskóna og hittumst við Hellisheiðarvirkjun laugardaginn 24. maí nk. kl. 10:00. Nánar tiltekið hefst hlaupið rétt innan við aðalbyggingar virkjunarinnar, þ.e.a.s. rétt hjá Kolviðarhóli.

Nánari upplýsingar um hlaupaleiðina má nálgast á https://fjallvegahlaup.com/hugmyndir/hellisheidi.

23. maí 2025 eftir Anna Lea Friðriksdóttir