Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bók sem fagnar fjölbreytileikanum!

Barnabókin Vertu þú! eftir Ingileifu Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur er komin út. Í bókinni eru sagðar litríkar sögur af fjölbreytileikanum. Sögurnar skapa frábæran umræðugrundvöll um rétt okkar til að vera eins og við viljum vera og þeim er ætlað að auka víðsýni og hvetja til fordómaleysis. Sögur bókarinnar byggja margar á raunverulegu fólki og fjölskyldum. 


„Eftir að hafa ítrekað rekið okkur á það að barnabækur gerðu ekki ráð fyrir okkar fjölskylduformi ákváðum við að okkur langaði að bæta úr því,“ segir Ingileif og heldur áfram: „En það var ekki bara okkar fjölskylduform sem endurspeglaðist ekki í barnabókum, heldur einnig fjölbreytileiki fjölda barna þarna úti þegar kemur að kynhneigð, kynvitund, uppruna, útliti, áhugamálum og fjölskyldumynstri. Þessi bók er því okkar óður til fjölbreytileikans í allri sinni dýrð, og ætluð til að búa til pláss fyrir öll börn til að vera nákvæmlega eins og þau eru.“


Ingileif og María Rut, höfundar Vertu þú!, halda úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikinn en markmið hans er að fræða og brjóta niður staðalímyndir um hinsegin fólk. Þær eru einnig umsjónarkonur hlaðvarpsins Raunveruleikinn. Ingileif og María eru hjón og eiga tvö börn. Bókina prýða fallegar myndir Öldu Lilju Hrannardóttir. Texta- og myndhöfundar bókarinnar eru því allar hinsegin konur.

Bókina er hægt að kaupa hér og fá senda heim, í póstbox eða á næsta pósthús við þig.

21. október 2020 eftir Anna Lea Friðriksdóttir