Hlaupahringir á Íslandi komin út!
Hlaupahringir á Íslandi eftir Ólaf Heiðar Helgason er komin út!
Hlaupahringir á Íslandi er fróðleg, skemmtileg og gagnleg bók fyrir alla sem hafa ánægju af útivist. Hér eru vandaðar lýsingar á 36 hlaupaleiðum um allt land fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Fjallað er um bæði aðgengilegar leiðir nálægt þéttbýli og stórbrotnar utanvega- og náttúruleiðir sem opna hlaupurum og lesendum bókarinnar ný sjónarhorn á Ísland. Hlaupahringirnir eru fjölbreyttir og liggja um fjöll, öræfi, sveitir, skóga og strendur. Leiðarlýsingar eru sérsniðnar að þörfum hlaupara og þeim fylgja fjöldi ljósmynda, vönduð kort og GPS-ferlar sem gera bókina einkar notadrjúga. Í þessari bók geta allir fundið leiðir við sitt hæfi.
Ólafur Heiðar Helgason hefur áralanga reynslu af hlaupum og útivist og yfirgripsmikla þekkingu á íslenskri náttúru og staðháttum auk þess sem sögulegur fróðleikur er víða kærkomin viðbót við nákvæmar leiðarlýsingar. Hér er fjallað um úrval íslenskra hlaupaleiða af öryggi og ástríðu. Hlaupahringir á Íslandi er ómissandi bók fyrir alla hlaupara, útivistarfólk og náttúruunnendur.